146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég byrja á því seinna sem hann nefndi hér, á traustinu: Já, ég held að þetta sé mikilvægt verkefni. Ég held að það sé mikilvægt að við sem sitjum á Alþingi og tilheyrum löggjafarvaldinu leggjum okkur fram um að gera hvað við getum til að byggja upp traust á fjármálakerfinu. Það hlýtur líka að hvíla á okkur sem önnumst lagasetningu að tryggja að fjármálakerfið geti búið við eins heilbrigt og eðlilegt starfsumhverfi og hægt er. Það er auðveldara að benda fingri á þá sem starfa innan þess kerfis en það er mikilvægara fyrir okkur að reyna að hafa umgjörðina sem besta þannig að hér geti vaxið upp hið heilbrigða fjármálakerfi sem við viljum öll og skiptir okkur öll máli. Það skiptir máli að við getum tryggt almenningi og atvinnulífi — allir þurfa að vera í viðskiptum við banka — ákveðið val á því sviði en ég held að það sé að einhverju leyti vanmetið.

Þó að ekki sé til siðs að spyrja þegar maður svarar andsvari leyfi ég mér að henda fram spurningu hvað varðar þetta ákvæði; hugsanlega svarar hv. þingmaður henni. Þó að ég og hv. þingmaður séum öndverðrar skoðunar um Evrópusambandið tel ég að við séum sammála um þörfina á ákvæðum um framsal valdheimilda í stjórnarskrá. Ég tel raunar að þar sé oft ákveðinn ruglandi í umræðunni. Hægt er að setja mjög skýrt ákvæði um framsal valdheimilda á takmörkuðu sviði sem hefur ekkert með Evrópusambandið að gera. Ef slíkt ákvæði ætti að fela í sér Evrópusambandið þyrfti það í raun að snúast um miklu altækara framsal valdheimilda, þ.e. ekki á afmörkuðu sviði, því að þá værum við að ganga inn í kerfi þar sem við værum ekki bara að tala um afmarkaða þætti löggjafarvalds, framkvæmdarvalds eða dómsvalds. Ég held því að vel sé hægt að gera það algerlega óháð skoðunum fólks á Evrópusambandinu.

Ég veit að í stjórnarsáttmála er kveðið á um endurskoðun stjórnarskrár en ég viðurkenni að ég er orðin ansi langeyg að frétta eitthvað af þeirri endurskoðun. Kannski getur hv. þingmaður upplýst okkur eitthvað eða að minnsta kosti um afstöðu sína gagnvart því máli.