146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki upplýst hana að neinu gagni um stöðu þess máls. En varðandi stjórnarskrárbreytingar almennt og það sem við erum sammála um, þ.e. að bæta þurfi úr varðandi framsal valds til erlendra stofnana í þágu erlends samstarfs, og varðandi þau orð að hægt sé að gera þetta í að minnsta kosti tvennu lagi, þ.e. annars vegar hugsa um takmarkað framsal og hins vegar víðtækara framsal sem myndi þjóna þeim tilgangi, ef til þess kæmi einhvern tíma í framtíðinni að Ísland vildi ganga í Evrópusambandið, að þá væru ákvæði sem hægt væri að grípa til í því samhengi. Ég er þeirrar skoðunar að ef við á annað borð erum sammála um að stjórnarskráin þurfi að sjá fyrir hluti, og að við þurfum að laga hana að þessu leyti, held ég að það væri ákaflega skynsamlegt að hugsa þetta. Því að við vitum í sjálfu sér ekkert hvað gæti gerst innan næstu tíu ára, eða fimm eða fimmtán, í alþjóðlegu samstarfi, sem fæli í sér hliðstætt framsal að einhverju marki eins og aðild að Evrópusambandinu fæli í sér. Þá held ég að það sé miklu betra að vera viðbúin slíku en að hafa stjórnarskrána algerlega ófullburða og ófullkomna að því leyti.

Ég held að við ættum að hafa dug og kjark í sameiningu til að nútímavæða stjórnarskrána að þessu leyti þannig að hún réði við það ef til þess kæmi. Þó að sé ákvæði um eitthvað í stjórnarskrá er ekki þar með sagt að með því sé komið fyrirheit um að beita því ákvæði til hins ýtrasta. Ég held að við ættum að horfa til þess.