146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka framsögumanni, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, kærlega fyrir framsöguna. Hún var mjög áhugaverð. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði, ekki síst þegar kemur að framsali. Ég deili áhyggjum þingmannsins af framsali til alþjóðlegra stofnana. Ég hygg að það væri þess virði fyrir okkur hér í þingsal að ræða þau mál ítarlegar en við gerum næstum því á hlaupum á milli frumvarpa. Þetta er eitt stóru málanna sem við eigum að velta fyrir okkur. Ég vara hins vegar mjög eindregið við því að þegar menn fara í breytingar á stjórnarskrá sé það gert með þeim hætti að allt sé galopið og hægt að framselja allt sem framseljanlegt er til alþjóðlegra stofnana eða ríkjasambanda o.s.frv. Ég hygg að þar séum við hv. þm. Katrín Jakobsdóttir algerlega sammála og einhuga.

Ég hjó hins vegar eftir því að hv. þingmaður velti fyrir sér að þó gæti verið að á ákveðnum sviðum kæmi framsal til greina, jafnvel umfram það sem stæðist ströngustu túlkanir á stjórnarskrá Íslands, hafi ég tekið rétt eftir, á ákveðnum sviðum. Ég áttaði mig hins vegar ekki á því hvort það voru þá m.a. þau svið er við fjöllum um hér, þ.e. fjármálamarkaðurinn, eða hvort hún hefur eitthvað annað í huga. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti upplýst mig um það.