146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni þetta andsvar. Fyrst til að svara spurningunni hygg ég að hann sé að vitna í það sem ég sagði áðan, að hér hafa valdheimildir verið framseldar á ákveðnum sviðum. Niðurstaða Alþingis — ekki endilega niðurstaða mín — hefur verið sú að það hafi gengið gagnvart stjórnarskrá. Við erum að ræða fjármálakerfið. Hér hafa verið framseldar valdheimildir hvað varðar flugrekstur, lyfjamál og annað slíkt. Niðurstaðan í hvert sinn hjá Alþingi hefur verið sú að segja: Já, það er verið að framselja heimildir á þessu tiltekna sviði en við teljum þó að það stangist ekki á við stjórnarskrá. Það sem ég færði rök fyrir í ræðu minni áðan var að á þeim tíu árum sem ég hef verið hér hefur þetta gerst allnokkrum sinnum. Stjórnskipunarfræðingar hafa lýst þeim áhyggjum að hreinlega sé verið að safna upp dæmum þar sem alltaf er gengið lengra og lengra gagnvart þanþoli stjórnarskrárinnar. Þess vegna má segja að þegar þetta stóra mál kom fram, sem við vitum að er skilgreint t.d. með þessum hætti í Noregi, sem meiri háttar framsal, þá var það a.m.k. niðurstaða mín að ég gæti ekki samþykkt það, fallist á það einu sinni enn, því að ég hef áður samþykkt að framselja valdheimildir á einhverjum tilteknum sviðum með þeim rökum að ekki sé verið að ganga of langt í þetta sinn. Það gengur alla vega ekki fyrir mig að samþykkja þetta einu sinni enn. Mér finnst við komin á þann stað, og held að ég hafi skilið hv. þingmann rétt að hann sé sammála, að við þurfum að taka þessa umræðu. Það er þörf, ég er alveg sammála, á ítarlegri umræðu um það, ekki aðeins um þessa breytingu á stjórnarskrá. Þeirrar breytingar er þörf því að við getum ekki verið í deilum í þingsal um hvort við séum að ganga gegn stjórnarskrá eða ekki þannig að í raun og veru yfirskyggi það efnisatriði máls.

Ég er hins vegar hjartanlega sammála hv. þingmanni um að sú heimild á ekki að vera (Forseti hringir.) altæk. Hún á að vera þröng og miðast við afmörkuð svið til þess að við getum hreinlega uppfyllt þær skyldur sem við nú þegar höfum að sinna.