146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:46]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að tala hér fyrir fullum sal, eða þannig. Enginn annar í salnum. (Gripið fram í: Jú, ég.) Jæja. En hér ræðum við um frumvarp til laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Því miður var ég fjarverandi við afgreiðslu þessa máls í nefnd. Ég hafði hugsað mér að leggja fram álit mitt hér og nú í sem stystu máli.

Ég er sammála mati meiri hlutans í vel flestu og einnig mörgum athugasemdum minni hlutans í málinu, þ.e. minni hluta Vinstri grænna. Eftirliti með fjármálastarfsemi hefur verið mjög ábótavant. Með þessu frumvarpi er ráðin á því ákveðin bót, sem er bara mjög gott. Það er samt rétt að athuga að bótin er frekar lítill plástur á meiri háttar meinsemd. Vandinn er sá að verið er að reyna að smíða regluverk utan um kerfi sem er í grundvallaratriðum slæmt að mörgu leyti. Með þessu er ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar á því kerfi heldur er eingöngu verið að búa til meira eftirlit með því. Það mætti svo sem tala um kenningu Ricardos um samkeppnisforskot sem sýnir hvernig sum lönd þróast í átt að ákveðinni sérhæfingu. Í dag er vel þekkt að sum lönd eru búin að sérhæfa sig nokkuð mikið og skilmerkilega í því að valda öðrum samfélögum og löndum fjárhagslegum og samfélagslegum skaða. Við köllum þau lönd skattaskjól. Þau lönd eru um 60 talsins í heiminum. Sum þeirra eru í Evrópusambandinu, sem þessi eftirlitskerfi taka til. Þótt eitt þeirra sé á leiðinni út leiðir þessi staðreynd mig til að álykta að það séu takmörk fyrir því hversu mikið bit er í umræddum eftirlitsstofnunum.

En bitið er ekki ekkert. Það er eitthvað. Þetta er betra en ekki neitt. Gott og vel. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin, Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin og Evrópska kerfisáhætturáðið eru þó líklegri til þess að bæta stöðuna en óbreytt ástand. Af þeim sökum styð ég að þetta mál nái fram að ganga. Ég styð jafnframt breytingartillögur meiri hlutans í málinu.

En að því sögðu tek ég líka undir spurningu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um stjórnskipulegan fyrirvara að vissu leyti. Í 1. umr. um þetta mál ræddi ég spurninguna um tvöfalt eftirlitskerfi í samhengi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Ég lít svo á að í þessu tilfelli sé í rauninni ekki verið að útvíkka valdframsalið sérstaklega heldur bara skapa sér enn meira rými innan EES-samningsins, sem fól náttúrlega í sér töluvert valdframsal á sínum tíma. Þetta er vissulega flókið. Í rauninni er búið að skapa fordæmi með upptöku á EES á sínum tíma og ítrekað framsal fullveldis, svo ítrekað að það er varla lengur hægt að tala um gildandi stjórnarskrá sem gildandi að þessu leyti til. Því miður.

Það lagast ekki úr þessu nema með nýrri stjórnarskrá eða með því að bakka að miklu leyti út úr öllu okkar alþjóðasamstarfi. Ég sé ekki að það síðarnefnda sé að fara að gerast.

Píratar tala ansi mikið um nýja stjórnarskrá og er það eitt af baráttumálum okkar að sú stjórnarskrá sem samin var og samþykkt af þjóðinni verði tekin upp. Það væri ein leið til að laga þetta vandamál. Það er vissulega óþægilegt að vera milli steins og sleggju í þessu máli að þurfa að gera upp á milli stjórnarskrárinnar og þess að draga úr möguleikum á misnotkun á fjármálakerfinu. Við vitum að slík misnotkun olli okkur töluverðum skaða fyrir ekki löngu síðan, einmitt á nákvæmlega sama tíma og það kom í ljós hversu innilega ónýt núverandi stjórnarskrá er. Því miður held ég að það sé allt of seint í rassinn gripið að reyna að bjarga virðingu núverandi stjórnarskrár. Það yrði til að bæta töluvert mikið af löggjöf okkar og meðferð okkar í þingmálum ef við gætum með meiri vissu talað um stjórnarskrárleg og stjórnskipuleg atriði. Að við þyrftum ekki alltaf að vera að velta fyrir okkur þessum fyrirvörum og hvort við séum að brjóta stjórnarskrá með framsali valdheimilda.

Þó svo að ég telji EES-samninginn duga í þetta tiltekna skipti, hreinlega vegna þess að skapast hefur hefð og reynsla fyrir því, og að þetta er kannski ekki það mikil útvíkkun, sérstaklega í ljósi þess að búið er að finna leið sem virðist vera ásættanleg innan umgjarðar EES-samningsins í öðrum ríkjum, þá er klárt mál að umræður af þessu tagi munu aldrei komast nógu langt án þess að þessar spurningar komi upp nema við förum í það verk að klára að afgreiða þá nýju stjórnarskrá sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir nokkrum árum, því að það er í raun það sem þetta snýst um. Við erum að reyna að laga stóran galla á fjármálakerfinu okkar, laga það eftirlit sem nauðsynlegt er að sé til staðar með fjármálakerfi sem er beinlínis hannað til þess að hjálpa ákveðnum aðilum umfram aðra. Það þarf þetta eftirlit. Það vita það allir. Við sáum hvernig fór í hruninu, við sáum hvernig fór í þeirri kreppu sem reið yfir stóran hluta heimsins fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Og ef við værum með almennilega stjórnarskrá sem leyfir okkur að gera það sem gera þarf, án þess að við séum alltaf að rekast á spurningar um hvort þetta sé lögmætt eða ekki og reyna að koma okkur undan slíku með einhvers konar réttlætingum og vitleysu, þá þurfum við bara nýja stjórnarskrá. Það er löngu orðið ljóst. Og við eigum hana til sem betur fer. Hún er fín, hún er góð, við ættum að samþykkja hana, en í millitíðinni getum við alla vega samþykkt þetta mál að mínu mati.