146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[20:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ef það hefur farið fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni hvenær Vinstri hreyfingin – grænt framboð var stofnuð þá var það árið 1998. Ég vil líka upplýsa hv. þingmann Vilhjálm Bjarnason um að ég hef aldrei verið félagi í Alþýðubandalaginu en ég er félagi og þingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Ég held að við séum að sigla inn í mjög áhugaverðar stjórnmálaheimspekilegar umræður, ég og félagi minn hér, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason. Hjal um nýfrjálshyggju — já, það getur vel verið að hv. þingmaður telji þetta vera hjal, sakleysislegt hjal. Það vill svo til að þetta sakleysislega hjal, eins og hann kallar það, nýfrjálshyggjan, beið afhroð í aðdraganda efnahagshrunsins. Ef einhver er að tala um hjal og gera lítið úr því þá bið ég viðkomandi að hugsa það aðeins upp á nýtt.

Varðandi þá fullyrðingu, sem fram kom í andsvari hv. þingmanns, félaga Vilhjálms Bjarnasonar, um að Fjármálaeftirlitið hafi haft nægar valdheimildir hér í aðdraganda hrunsins til að gera hitt og þetta þá endurtek ég það sem ég kom inn á hér áðan. Það hafði það bara alls ekki. Það var búið að veikja Fjármálaeftirlitið markvisst í aðdraganda efnahagshrunsins. Mér sýnist að núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafi ekki mikinn áhuga á því að styrkja Fjármálaeftirlitið eins nauðsynlega og það þarf á að halda, hvorki með fjármunum né lagalegum styrkingum. Þannig að mér þætti ágætt og áhugavert að heyra, úr munni hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, hverjar hans hugmyndir eru varðandi styrkingu á eftirlitsverki og reglugerðum er koma í veg fyrir áföll á borð við efnahagshrunið. Er hann sammála því sem hagfræðingurinn John Kay hefur ritað um að líka þurfi að skoða gildi og menningu í viðkomandi (Forseti hringir.) samfélögum, ekki bara koma á eftirlitsreglugerðum heldur fara í djúpa umræðu um þessa hluti?