146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[20:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og framsögumanni málsins fyrri yfirferðina yfir nefndarálitið.

Segja má að þetta mál sé að hluta til góðkunningi úr hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem það var til umfjöllunar á fyrri þingum, eins og fram hefur komið, þ.e. þetta mál sem hluti af stærra máli eins og reifað var í ræðu framsögumanns nefndarálitsins.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og formann nefndarinnar um nokkur atriði, þó fyrst og fremst tvö atriði sem fram koma í kaflanum um önnur sjónarmið. Ástæðan er sú að það liggur ljóst fyrir öllum þeim sem fylgst hafa með þinglegri meðferð þessa máls og forvera þess á sínum tíma, að hér hefur ráðherra valið þyngri leið, þ.e. að fjalla ekki sérstaklega um almenningssamgangnahlutann með þeim hætti sem áður var gert. Ég tek eftir því að Strætó bs., Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökin gera athugasemdir við það. Þau hafa væntingar til þess að um þá starfsemi þurfi að búa með myndarlegum og afgerandi hætti í löggjöf.

Ég fagna því sérstaklega að nefndin tekur undir þau sjónarmið og að um þetta þurfi að búa með viðhlítandi hætti. En ég tek jafnframt eftir því að í fyrsta lagi segir í nefndarálitinu: Nefndin tekur að hluta til undir þau sjónarmið. Mig langar að vita: Að hvaða hluta tekur nefndin undir þau sjónarmið? Er það kannski ekki öll nefndin sem tekur undir þau sjónarmið eða hvernig liggur það?

Í öðru lagi: Hefur komið til álita að búa um þessa skoðun nefndarinnar í bráðabirgðaákvæði?