146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[20:57]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ég vil taka undir með félögum mínum og framsögumanni að það var afar ánægjulegt að nefndin skyldi ná saman í þessu máli og skila sameiginlegu áliti. Það er búið að vera mikið áhugamál hjá mér að ná því í gegn að tryggja og treysta almenningssamgöngur í landinu. Mér finnst þessi niðurstaða afar góð. Við náðum saman og mér finnst að við getum verið mjög sátt við niðurstöðuna þótt auðvitað sé alltaf eitthvað þannig að maður hefði kosið aðrar leiðir, en til að ná saman þurftu allir að gefa eitthvað eftir. Það gerðum við öll.

Mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram að samstarfið við fulltrúa þeirra fyrirtækja sem komu fyrir nefndina, þá á ég aðallega við fyrirtæki sem stunda akstur með farþega um landið, var afar gott og jákvætt og þeir gerðu okkur leikinn og eftirvinnuna léttari. Það fór vel á með okkur á fundunum og við náðum sameiginlegri niðurstöðu, að tryggja almenningssamgöngur um landið allt árið.

Hér hefur verið farið vel yfir það sem er búið að bóka. Ég ætla ekki að endurtaka það en vil þó ítreka það sem hv. formaður nefndarinnar, Valgerður Gunnarsdóttir, kom inn á í lok ræðu sinnar, að sú ábending kom frá Alþýðusambandi Íslands að erlendir ferðaþjónustuaðilar stunduðu farþegaflutninga hér á landi án tilskilinna leyfa og án þess að virða ákvæði íslenskra laga til að mynda um lágmarkslaun bílstjóra. Það er ómögulegt að þetta skuli geta gengið. Við fengum fréttir af því að jafnvel teldi lögregla sig eiga í erfiðleikum með að stoppa þessar bifreiðar og athuga með stöðuna á leyfum og farþegum.

Við vitum líka til þess að sumir rekstaraðilar hafa ferðast um landið með svokallaðar hótelrútur, stoppað á gististöðum og nýtt þar almenningssalerni og eldað og selt mat út úr bílunum. Það líðst ekki við íslenskar aðstæður. Ég held að mjög mikilvægt sé að tekið verði hart á slíkum málum. Við eigum ekki að líða það að brotið sé á gestum okkar og starfmönnum fyrirtækja gagnvart lögum um laun og frídaga. Þetta er líka öryggistæki fyrir okkur öll sem erum í umferðinni.

Ég tek einnig undir það sem hefur verið sagt um að setja sérstök lög um almenningssamgöngur. Það er mikilvægt að setja lög um þennan stóra málaflokk sem við erum að lenda að hluta til hérna og veita almenningi í landinu traustar og góðar almenningssamgöngur inn í framtíðina.

Ég get ekki farið úr þessum stól öðruvísi en að minnast á leigubílstjórana sem ganga svolítið ósáttir frá borði. Þeir komu til okkar og viðruðu alls lags sjónarmið varðandi notkun minni bíla. Það er þó komið mjög ákveðið inn á það í þessu nefndaráliti að notkun þeirra bíla þarfnist sérstaks ferðaþjónustuleyfis. Það verða að vera fyrirframgreiddar ferðir og þær verða að taka allt að hálfan dag a.m.k. Það var niðurstaða nefndarinnar að fara þá leið. Hún var ekki auðveld fyrir alla, en það var sameiginleg niðurstaða nefndarinnar að tryggja fyrst og fremst almenningssamgöngur í þessu máli.

Það hefur líka komið fram hjá félögum mínum í nefndinni að mikilvægt sé að fara yfir málefni leigubílstjóra og rútufyrirtækja um þetta samstarf á þessum vettvangi. Við erum sammála um það og ég tek undir þau sjónarmið. Ég vil enn og aftur ítreka þakklæti mitt til nefndarmanna fyrir afar gott og traust samstarf í þessu máli, mjög gott, okkur öllum til eftirbreytni í nýjum málum og verkefnum.