146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:34]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki kalla þetta bölsýni heldur raunsæi. Þegar við horfum á borgir á meginlandinu, hvort sem það eru 150 þús. manna eða 300 þús. manna eða 400 þús. manna, er það hluti af miklu stærra samfélagi. Það eru alls konar samgöngur sem tengja jafnvel þessar borgir. Þetta geta verið lestarsamgöngur inn í borgirnar, þetta geta verið einhver kerfi sem tengja tvær borgir saman o.s.frv. Horfum svo á Ísland þar sem búa 200 þús. manns á Stór-Reykjavíkursvæðinu, það búa innan við 20 þús. manns t.d. í Reykjanesbæ eða þar í kring. Maður fer að hugsa um veðurfar á Íslandi, jarðgöng sem þarf að gera í gegnum þrjá hóla, ef við erum að hugsa um eitthvað annað heldur en allra einföldustu lestir, nú er ég að tala milli Reykjavíkur og segjum Keflavíkur. Ég held að það sé framtíðarmúsík. Ég er alls ekki að segja að það verði ekki. Ég er bara að segja að það verði kannski á næstu öld eða eitthvað í þeim dúr, eins og ég sagði í ræðu minni.

Innan Reykjavíkur sjálfrar held ég að borgarlínan verði rafvagnar, ekki léttlest. Ég held líka að í fyrsta skipti sem við fáum greiðar samgöngur til Keflavíkur, þ.e. almenningssamgöngur einhvers konar, verði það rafvagnar en ekki léttlest eða þunglest eða hvað við köllum það. Ég held þetta sé eingöngu spurning um fjárfestingar, þetta er spurning um getu íslensks samfélags umfram einhvers konar hagnaðartúrisma til þess að halda slíku úti til langs tíma, vegna þess að maður byggir ekki upp stórt almenningssamgangnakerfi á grunni túrismans sem maður hefur ekki hugmynd um hvernig kann að reiða af. Ég vil því kalla þetta raunsæi en ekki bölsýni. Sennilega erum við hv. þingmaður meira sammála en hann heldur.