146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:37]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega þetta svar. Ég verð reyndar að gera greinarmun á tvennu, lestarsamgöngum yfir lengri skala eða hraðlestum til Keflavíkur annars vegar og hins vegar léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Það er rétt að það eru tvenns konar útfærslur sem menn hafa verið að tala um þegar kemur að þeirri línu, annars vegar „bus rapid transit“, eða hraðvagnar, og hins vegar léttlestir.

Það sem ég hef helst verið efins um, svo að ég upplýsi hv. þingmann um það, varðandi léttlestafyrirkomulagið, sem mér finnst satt að segja miklu meira heillandi, það er rómantískari og fallegri hugmynd, er annars vegar að það er hærri kostnaður og hins vegar að það skortir þá þekkingu á infrastrúktúr sem er þegar til staðar í mörgum löndum þar sem líkt kerfi hefur verið byggt upp. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að það er þannig víða í þeim löndum þar sem er léttlestakerfi, t.d. í Frakklandi, að það er sporvagnakerfi við hliðina á þeim borgum sem þarf að byggja upp, þannig að það er aðeins öðruvísi.

Í ljósi þess hve mörg Evrópuríki hafa valið að byggja upp léttlestir fremur en hraðvagnakerfi myndi ég alla vega vilja skilja það eftir sem lausn á borðinu.