146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði rétt að koma upp og loka þessari umræðu sem framsögumaður málsins, en fyrst við fórum að tala um borgarlínu og lestir ætla ég að vera hérna dálítið lengur.

Að öllu gamni slepptu ætla ég kannski aðeins að koma inn í þá umræðu áður en ég tek það saman sem ég hef tekið út úr umræðunni sem hefur svo sem ekki allt komið á óvart því að margir hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls í kvöld skrifa undir nefndarálitið og sitja með mér í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég hygg nefnilega að þetta sé mjög mikilvæg umræða, þ.e. um almenningssamgöngur almennt og næstu skref í þeim efnum. Ég held að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann spáði því að þeir kumpánar úr umhverfis- og samgöngunefnd, hann og hv. þm. Pawel Bartoszek, myndu saman einhvern tímann setjast upp í einhvers konar vagn eða hvað það nú væri sem tilheyrði slíkri — borgarlínu, eða hvað? Jú, það er nafnið sem er búið að gefa þessu. Ég held að við þurfum að átta okkur á því hversu örskammt fram í tímann við erum að tala. Þetta er á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040.

Viðræður við ríkisvaldið eru að fara í gang bara núna. Hæstv. ráðherra samgöngumála hefur gefið grænt ljós á slíkar viðræður eins og hæstv. ráðherra hefur komið inn á aðspurður í þessum sal. Ég kom inn á fjármálaáætlunina. Það er eðlilegt að einhverju leyti kannski að ekki sé að finna sérstaka fjármuni á fjármálaáætlun næstu fimm ára, en það eru allar líkur á að í uppfærðri áætlun á næsta ári eða þarnæsta verði þetta að finna. Plássleysi, hæðir, hólar eða hvað það er, það er búið að teikna þetta inn á skipulag. Þetta er bara að fara af stað. Hvort þetta verður á teinum sem léttlestir eða hraðvagnar sem heita á ensku, með leyfi forseta, „bus rapid transit“, er bara ákvörðun sem verið er að taka. Það eru rök með og á móti. Hraðvagnar eru ódýrari og eru þá jafnvel hugsaðir sem fyrsta skref til varanlegri brauta. Þar sem sú leið hefur verið farin hefur það sýnt sig að stundum er skref tvö ekki tekið og þá festast menn í hraðvögnum. Sums staðar hefur sýnt sig að það borgi sig að taka einfaldlega stærra skref strax og fara beint út í léttlestir. Hvort heldur sem er erum við að tala um sérreinar sem enginn annar notar. Við erum að tala um aðgöngupalla sem búið er að greiða að áður en maður kemur inn á, eins og hv. þingmenn þekkja af ferðum sínum í útlöndum. Við erum að tala um, svo ég leyfi mér að nota það óviðurkvæmilega orð, massaflutningstæki, hvort sem það rennur á gúmmídekkjum eftir malbiki eða einhvers konar dekkjum sem ég hef ekki verkfræðilega þekkingu til að segja úr hverju eru, eftir teinum, væntanlega einhverjum málmi. Það er bara ákvörðun sem við horfum fram á á næstunni.

Ég tek undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, það þarf að skoða alla möguleika þegar kemur að almenningssamgöngum hvaða nafni sem þær nefnast, hvort sem eru einhvers konar hraðlestir á milli Keflavíkur og Reykjavíkur eða hvað það er. Borgarlínukerfið gerir ráð fyrir tveimur ásum teiknuðum inn á. Þetta má allt skoða á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er verkefni höfuðborgarsvæðisins þannig að þar eru menn ekki að huga að neinum frekari tengingum út af höfuðborgarsvæðinu. Það væri þá þriðja eða fjórða skrefið. Við erum komin dálítið langt inn í stafrófið ef við ætlum að telja okkur hvert skref inn í sem bókstaf. En þetta er það sem við verðum að fara að horfast í augu við að fari að gerast.

Við erum með til umfjöllunar þingsályktunartillögu um orkuskipti í samgöngum þar sem almenningssamgöngur eru með sérkafla. Við erum búin að undirgangast markmið Parísarsamkomulagsins. Við erum búin að taka á okkur alls konar skuldbindingar og svo er þetta líka bara rétt, alveg óháð því hvað við höfum skrifað undir. Okkur ber skylda til að gera þetta samkvæmt laganna bókstaf, sem ég er nú alls ekki að gera lítið úr, en líka gagnvart jörðinni og umhverfinu.

Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið. Hún hefur verið mjög góð. Mér lá svo á að fara í lestur og útskýringu á nefndarálitinu, ég hafði ekki áttað mig á því hversu langan tíma þetta tæki, að ég held að mér hafi láðst að hrósa forystu nefndarinnar þannig að ég tek undir góð orð til formanns ritstýringarnefndar, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, og formanns nefndarinnar, hv. þm. Valgerðar Gunnarsdóttur. Ég mun þakka hér núna í átta mínútur og 40 sekúndur í þeirri von að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon komi og slái aðeins á gleðina. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og ég þakka samnefndarmönnum vinnuna. Það er ýmislegt sem einhverjir hefðu viljað sjá öðruvísi hér og margt sem við erum öll ánægð með. Einhverjar setningar hefðu einhverjir viljað orða öðruvísi, hafa einhver ákvæði aðeins öðruvísi eins og gengur, en markmið þessa nefndarálits og breytingartillagna sem við leggjum hér fram eru skýr og hafa endurspeglast skýrt í máli hv. annarra nefndarmanna hér í kvöld.

Við erum býsna sammála í þessu máli. Þess vegna langar mig að taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur varðandi það að kannski sé ráð að skoða hvort hægt sé að brýna það með einhverjum hætti betur að beina því til ráðherra að það verði farið í þá endurskoðun sem við höfum hér hvert á fætur öðru tekið undir að nauðsynlegt sé að fram fari þegar kemur að þessum málaflokki. Ég horfi þar sérstaklega á almenningssamgöngur eins og við höfum rætt. Ég vitna í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram ábendingar, m.a. frá Strætó bs. og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, svo og frá landshlutasamtökum, um að nauðsynlegt væri að sett yrðu sérstök lög um almenningssamgöngur.“

Hvaða aðilar eru þetta? Þetta eru allir þeir aðilar sem koma að rekstri almenningssamgangna, kannski fyrir utan Akureyrarbæ og fyrir austan þar sem er rekið sérstaklega, en það er þá innan landshlutasamtaka. Þetta eru allir aðilarnir sem koma að þessu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessir aðilar leggja til að slík lög verði sett. Þó að ég hafi boðað breytingar fljótlega í almenningssamgöngum þegar kæmi að borgarlínu held ég að engin ástæða sé til að bíða þeirra, ég held að það sé frekar ástæða til að fara strax af stað í þessa vinnu.

Ég beini því til forseta, bæði út af því sem ég nefni hér en líka af því sem ég kom inn á í framsögu minni, að hér þarf að skoða hvort verið sé að vísa í rétt lög þegar kemur að lögum um málefni fatlaðs fólks í ljósi þeirra tveggja frumvarpa sem rædd voru hér fyrr í kvöld, á þskj. 571 og 572. Í ljósi umræðunnar sem fram hefur farið í kvöld legg ég til að málið gangi til nefndar að lokinni þessari umræðu sem skoði þá þar hvort vísað sé í rétt lög og hvort ástæða sé til að setja bráðabirgðaákvæði eða brýna á einhvern enn betri hátt nauðsyn þess að fara í frekari endurskoðun á þessum málaflokki, óháð þessum lögum sem ég vona að verði samþykkt.