146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:29]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Kjörgengi í stjórn Byggðastofnunar er víst níu ár [Hlátur í þingsal.] þannig að maður þarf ekki að vera sjálfráða til að standa í því. En svona að öllu gamni slepptu þá geta 16 börn farið til læknis án þess að spyrja foreldra sína, svo dæmi sé tekið. Þá eru þau orðnir sjálfstæðir þjónustuþegar, þau þurfa ekki að spyrja mömmu og pabba til að leita sér lækninga. Þetta fer því ekki allt saman. En þetta er áhugaverð spurning og ég skil hvað hv. þingmaður er að fara með þessu, að honum finnist þetta þurfa að fara saman, sjálfræði og að taka þátt í kosningum. Ég er ekki sammála því. Ég tel að það geti verið eðlilegt fyrir lýðræðissamfélag að leita eftir skoðunum þeirra sem ekki eru enn komnir á sjálfræðisaldur vegna þess að okkur finnst skipta máli að þeirra rödd heyrist líka þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir. Mér finnst það vel geta orðið þó að ég átti mig alveg á rökunum fyrir hinu.

Og eins og ég sagði áðan í of löngu máli er svo margt jákvætt sem hefur fylgt því að færa sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár að ég er ekki viss um að við myndum vilja fórna því. Ég held að við getum náð fram markmiðum um að auka þessa lýðræðisþátttöku án þess að breyta því en það er bara eðlilegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari yfir það.

Síðan vil ég bara taka undir með hv. þingmanni; ef reyndin verður sú að þessu verði breytt mun það skila sér að treysta þessum hópi og hópurinn mun standa undir því trausti, ég er alveg viss um það. Ég held að aðalmálið til þess að vekja áhuga ungs fólks á stjórnmálum sé einmitt að það finni fyrir því í reynd að það hafi áhrif, að það hafi eitthvað að segja. Það er það sem ætlunin er að gera í skólastarfinu og verið er að gera víða þar, en það skiptir líka máli að fólk geti komið að raunverulegri pólitík. (Forseti hringir.) Ég man enn eftir því þegar ég kaus í fyrsta sinn hvað mér fannst það stór dagur í mínu lífi og hvað ég var búin að bíða lengi eftir þeim degi.