146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. flutningsmanni Katrínu Jakobsdóttur fyrir góða framsögu og í raun flutningsmönnum öllum fyrir mjög góða greinargerð með frumvarpinu.

Ég tek sérstaklega undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns um umsagnir, þegar við hér á þingi vísum málum til umsagna. Ég er ein af þeim sem eru talsmenn barna á þingi. Við höfum rætt þetta svolítið í okkar ranni. Þar hafa einmitt komið ábendingar frá ungmennaráðunum sem við höfum verið að vinna með sem eru mjög öflug — mjög flottir og frambærilegir krakkar — um að þau myndu gjarnan vilja vera virkari þátttakendur í þessu starfi okkar.

Það var margt í ræðu framsögumannsins sem hljómaði sem konfekt í mín eyru. Hafandi starfað lengi á sveitarstjórnarstiginu tek ég undir að það er kannski einmitt í þeim málaflokkum sem ungmennin ættu að hafa mjög virka rödd. Þau þekkja þá þjónustuþætti mjög vel sem verið er að veita hjá sveitarfélögunum.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann þar sem það frumvarp hefur komið fram áður: Hefur það verið sent út til umsagnar? Hvað hefur þá staðið í vegi fyrir því að það hafi fengið áframhaldandi afgreiðslu? Lýtur það fyrst og fremst að stjórnarskrárbreytingunum? Hefur eitthvað af umsögnunum lotið að þessari spurningu hér, að færa niður kosningaaldurinn?