146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:33]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er ánægjulegt að heyra hennar sýn sem konu með reynslu af sveitarstjórnarmálum. Sveitarfélögin hafa mörg hver um margt staðið framarlega í því að leita eftir sjónarmiðum ungs fólks. Við þekkjum til dæmis fundi hér í Reykjavík þar sem borgarstjórn fundar með ungmennaráði. Vafalaust er það þannig víða í fleiri sveitarfélögum. Þaðan heyrum við oft raddir frá ungu fólki, í gegnum sveitarstjórnirnar. Ég held því að þetta geti verið gott skref.

En hv. þingmaður spyr hvað hafi tafið málið. Þetta er í fyrsta sinn sem mælt er fyrir málinu. Það er gert með þessum varfærnari hætti vegna þess að það er meira en að segja það að fá í gegn stjórnarskrárbreytingar nema búið sé að undirbyggja þær. Það var ástæðan fyrir því, í umræðum hér á milli manna, að ákveðið var að leggja þetta til með þessum hætti. Líka til að læra af reynslu annarra þjóða sem hafa stigið þessi skref í áföngum, ekki stigið skrefin í einu lagi heldur prófað þetta fyrst og séð hvaða reynsla gæfist af því. Þess vegna lagði ég svo ríka áherslu á það hér áðan í máli mínu að ég er mjög áhugasöm um að sjá hvaða umsagnir berast og hvernig þær verða því að sú hefur ekki orðið raunin. Þar af leiðandi hefur sú umræða kannski ekki farið fram sem hv. þm. Óli Björn Kárason vitnaði til um samræmi milli sjálfræðisaldurs og kosningaaldurs og annað slíkt. Ég held að við höfum einstakt tækifæri til að gera þetta, ég tala nú ekki um ef jafnvel næðist að skapa samstöðu fyrir kosningar 2018, þá væri það auðvitað sérlega ánægjulegt.