146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

331. mál
[23:43]
Horfa

Flm. (Einar Brynjólfsson) (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir andsvarið. Já, þingflokkur Pírata er þess fullviss að þetta sé rétta leiðin. Það er nefnilega þannig að niðurstöðurnar og ábendingarnar sem okkur bárust úr þessari nýjustu skýrslu um Hauck & Aufhäuser hafi verið mjög jákvæðar.

Svona rannsókn, svona úttekt, sýnir okkur hvað hefur farið forgörðum, hvar mistök hafa verið gerð, hvar hefur hugsanlega verið gert eitthvað glæpsamlegt. Ef við gerum það ekki, ef við sleppum þessu þá missum við af tækifæri til að gera þetta mál upp.

Það má líka benda á að það er ekki útilokað að ýmislegt jákvætt komi út úr þessari skýrslu og kannski verði þetta til þess að ýmsir þeir sem eru ósáttir við þá umræðu sem er í gangi og finnst að sér vegið fái uppreisn æru í einmitt slíkri skýrslu.

Við verðum að svipta hulu af þessari leynd. Þó að afleiðingar verði ekki aðrar en a.m.k. samfélagslegar þá verða þær alla vega til þess að þrýsta á gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð. Þá er tilganginum náð, að hluta til að minnsta kosti.