146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

331. mál
[23:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mitt andsvar er sett fram meira í þeim tilgangi að skiptast á skoðunum við hv. þingmann á þessum tímapunkti þegar hann er að mæla fyrir tillögu um nýja rannsókn frekar en að ég hafi í sjálfu sér efasemdir um að það beri að fara í þessa rannsókn. Ég held að full ástæða sé til þess og ágætlega rökstutt hjá hv. þingmanni að það verði gert.

En mig langar, vegna þess að þetta er allt ferskt í huga þingmannsins og flutningsmanna málsins, að spyrja hann hvort flutningsmenn málsins hafi velt því fyrir sér í aðdraganda og gerð þess hvernig Alþingi gæti síðan í fyllingu tímans tryggt það að afurð svona rannsóknar komi að notum. Nú fáum við skýrsluna og henni er vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vinnur úr málinu og málið er síðan rætt aftur á Alþingi.

Vangaveltan er þessi: Eigum við með skipulegum hætti að skoða málið aftur eftir fjögur ár, eftir tvö ár, eftir fimm ár, eftir eitthvað, þannig að við ögum okkur sjálf í þá veru að það gerist aldrei að við föllum í freistni hvítþvottar, þ.e. það komi út skýrslur og við teljum þar með að við séum búin að tikka í boxin og getum haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist?