146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

svör við fyrirspurnum.

[15:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Líkt og fyrri hv. þingmenn vil ég furða mig á því hversu oft ráðuneyti fara yfir lögboðinn frest til að svara fyrirspurnum þingmanna. Ég lagði fyrirspurn fram 8. mars eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Sú fyrirspurn var til dómsmálaráðherra og var því komin á tíma 29. mars. Ég grennslaðist fyrir um stöðuna og fékk þau svör í gær að vegna tæknilegra örðugleika við það að skipta innanríkisráðuneytinu upp í tvennt hefði málið tafist. Við samþykktum þingsályktun um nýtt ráðuneyti 22. mars, viku áður en fresturinn rann út. Nýtt ráðuneyti tók til starfa 1. maí, mánuði eftir að fresturinn rann út. Einu sinni var innanríkisráðuneytið það ráðuneyti sem hafði með upplýsingaöryggi í landinu að gera, þannig að tæknilegir örðugleika þar á bæ eru ekki beint til að fylla mann trú og trausti á stjórnsýslunni.