146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

svör við fyrirspurnum.

[15:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með félögum mínum um þessar fyrirspurnir. Ég á ansi margar sem er ósvarað síðan snemma í mars. Meðal annars er fyrirspurn sem varðar notkun geðlyfja sem á að ræða í dag, sérstök umræða. Ég hefði gjarnan viljað vera búin að fá svör við þeim spurningum sem passa akkúrat inn í þá umræðu sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson er að fara í við heilbrigðisráðherra. Ég spyr: Ef heilbrigðisráðherra getur undirbúið sig undir þá umræðu með tiltölulega skömmum fyrirvara, hvers vegna er ekki hægt að svara þessum spurningum? Á hverju stendur? Það eru margar spurningar sem þar eru undir og í hinum málunum sem ég er með líka. Það er löngu komið fram yfir frest. Það er t.d. búið að biðja um frest á þeirri fyrirspurn sem ég nefndi 3. apríl og aftur 2. maí. En svo ætlar sami ráðherra að eiga sérstaka umræðu um sambærilegt málefni. Þetta er óviðunandi.