146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

svör við fyrirspurnum.

[15:08]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með félögum mínum um litla skilvirkni í ráðuneytunum, öllum sem einu, sýnist mér. Ég sjálf sendi inn þrjár fyrirspurnir í byrjun febrúar. Ég vil ítreka að lögbundinn frestur til að svara skriflegum fyrirspurnum eru 15 virkir dagar. Það er vika síðan ég fékk svör við þessum fyrirspurnum. Þetta er ótækt. Allar fyrirspurnirnar — ein var um eigendastefnu og eignarhald á Landsvirkjun, önnur um innanlandsflug og sú þriðja um stefnu í eignarhaldi á ríkisjörðum í ábúð — voru spurningar um stefnu ráðherra í þessum tilteknu málum. Þurftu ráðherrarnir allir að hugsa sig um í þrjá heila mánuði áður en þeir gátu svarað einföldum spurningum um stefnu sína í þessum atriðum? Þetta er ótækt. Ég verð að segja að (Forseti hringir.) síðasta ríkisstjórn stóð sig mun betur við að svara spurningum. Maður þurfti alla vega ekki að bíða í þrjá mánuði þótt sumt drægist kannski nokkra daga eða vikur.