146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrsta maí tóku fjölmargir þátt í baráttudegi verkafólks, sýndu samstöðu og stuðning. Í gær, 2. maí, var líka hátíðisdagur fyrir vinnandi og venjulegt fólk á Íslandi, 25 ár voru liðin frá undirritun EES-samningsins, þessa langstærsta og mikilvægasta milliríkjasamnings sem Ísland hefur gert.

En voru Íslendingar á einu máli um ágæti EES-samningsins fyrir aldarfjórðungi? Ó, nei. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti í stjórnarandstöðu fyrir 1991 en kúventi eftir kosningar, undrið gerðist og kannski er þrátt fyrir allt tími kraftaverkanna ekki liðinn. Að vísu klofnaði hann við atkvæðagreiðsluna hér í þinginu. Bæði Alþýðubandalag og Framsókn voru á móti, Alþýðuflokkurinn, jafnaðarmannaflokkur Íslands, stóð einn flokka heill og óskiptur með EES-samningnum í gegnum allt ferlið með utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, fremstan í stafni. Helstu talsmenn afturhaldsins spáðu því að allt færi hér til fjandans, erlendur floti myndi ræna okkur fiskinum, erlendir verkamenn taka frá okkur vinnuna og útlendingar kaupa upp ár og jarðir. Þung orð voru látin falla, jafnvel að sjálfstæðið myndi glatast. Hverjum dettur það í hug í dag? Hvarflar að nokkrum manni að Noregur sé ekki fullvalda ríki eða ESB-löndin, Danmörk, Svíþjóð og Þýskaland? EES-samningurinn hefur fært íslensku þjóðinni velsæld hvernig sem á það er litið. Efnahagslega, atvinnulega, félagslega og menningarlega. Dýrmæt tengsl eru á menntasviði og Íslendingar hafa notið mikilvægra vísinda- og menntastyrkja.

Því er ástæða til að fagna þessum tímamótum og sérstaklega lyftist brúnin þegar hinn tápmikli hæstv. utanríkisráðherra tjáir sig opinberlega og kann sér ekki læti yfir því hversu farsællega þetta samstarf hefur þróast. Kannski er þetta vísbending um að íhaldið sjái ljósið, sé reiðubúið að horfa upp og til framtíðar, vinna að stöðugleika með nothæfum gjaldmiðli í virkri þátttöku og með aðild með öðrum Evrópuþjóðum.