146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni það sem kallað hefur verið 90 daga gistileyfi. Á fund okkar í fjárlaganefnd hafa komið fulltrúar sveitarfélaga og hafa haft við þetta frumvarp miklar athugasemdir, bæði vegna þess að sveitarfélög fá ekki tilkynningu um það hverjir skrá sig og svo hafa þau áhyggjur af eftirlitinu. Það sama átti sér stað þegar við fjölluðum um þetta í þinginu, við höfðum áhyggjur af eftirlitsþættinum. Við höfum ekki bara haft áhyggjur af því að eftirlitið sé ekki nægilega gott heldur átti þetta að draga upp á yfirborðið þá sem væru í svartri starfsemi en sú hefur því miður ekki orðið raunin, að því er ég held. Það eru afar fáir, að mér skilst, sem hafa sótt um leyfi fyrir slíkri gistingu. Síðan er kostnaðurinn líka mun meiri en til stóð. Þetta átti allt að vera miklu einfaldara, þetta átti ekki að vera íþyngjandi. Mig minnir að gjaldið hafi átt að vera í kringum 8.000 kr. en síðan hefur fólk sem hefur sótt um lent í því að borga heilbrigðiseftirlitsgjald, hærri fasteignaskatta o.s.frv. jafnvel vegna leigu á sumarbústaðnum sínum eða í öðru húsnæði sem það á og hefur heimild til að leigja á þennan hátt. Þetta virðist vera flopp þetta mál og ég held að við verðum að skoða það. Það er mjög bagalegt ef einn aðili hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu á að sjá um eftirlit á öllu landinu. Það sér hver heilvita maður að það gengur ekki upp. Bara það að það sé einn aðili sem á að sjá um þetta krefur okkur um það að við skoðum þetta mál aftur og förum betur yfir það.

Það er líka bagalegt ef ekki er eitthvert ferli í gangi sem segir að þegar einhver sækir um sé það tilkynnt til sveitarfélaganna. Þau eiga rétt á útsvari af þessum tekjum sem innheimtast, sveitarfélögin sem hafa komið til okkar í fjárlaganefnd segja að þau viti ekkert um þetta mál og fái ekki tilkynningar um það. Þetta er nokkuð sem við verðum að lagfæra.