146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við Íslendingar erum rík af auðlindum en ekki góð í að semja um verð fyrir nýtingu þeirra. Útgerðarfyrirtæki greiða t.d. veiðigjald sem er langt undir markaðsverði. Í kosningabaráttunni voru frambjóðendur Viðreisnar sammála okkur í Samfylkingunni um að opinbert útboð væri skilvirkasta leiðin til að skila arðinum af fiskvinnsluauðlindinni til þjóðarinnar. Útboð drægi fram sanngjarna samkeppni milli sjávarútvegsfyrirtækja og tryggði minni fyrirtækjum aðgang að kvóta. Í dag geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta. Nú um stundir gengur kílóið af þorski í útboði útgerðarinnar á 180 kr. en veiðigjaldið sem rennur í ríkissjóð er aðeins 11 kr. Þorskkvótinn hefur aldrei mælst stærri en á þessu ári. Líklegt er að lagður verði til góður viðbótarkvóti á næstu fiskveiðiárum.

Setjum svo að viðbótin yrði hófleg, eða 20 þús. tonn eins og á síðasta fiskveiðiári. Ef kvótaeigendur fengju allt til sín að frádregnum þeim rúmu 5% sem fara í annað og leigðu frá sér fengju þeir 3,6 milljarða í leigugjald en 200 milljónir króna af því rynnu í ríkissjóð í formi veiðigjalds. Ef í opinberu útboði fengist mun lægra verð, t.d. 50 kr. á kílóið, rynni milljarður beint í ríkissjóð. Ef tillaga verður gerð um viðbótarkvóta fyrir næsta fiskveiðiár, sem hefst í september, þarf að hefjast handa strax við að undirbúa útboð ef ekki á bara að skipta viðbótinni á milli kvótaeigenda.

Ég vil spyrja hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, þingflokksformann Viðreisnar, sem situr í fjárlaganefnd, hvort henni finnist ekki góð hugmynd að bjóða út viðbótarkvótann, hvort sem hann verður lagður til á næsta fiskveiðiári eða á öðrum tíma kjörtímabilsins, og nota tekjurnar til að efla heilbrigðiskerfið. Með því gæti Viðreisn uppfyllt að hluta kosningaloforð sín um útboð á kvóta og loforðið um að efla heilbrigðiskerfið. Þarna væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi.