146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er ekkert launungamál að mér þykir þetta áhugaverð nálgun. Markmiðin eru góð. Um það get ég verið fyllilega sammála hv. þingmanni. Ég er þeirrar skoðunar um þetta tiltekna mál, prófun, eins og hv. þingmaður hefur nefnt þetta, að betur færi á að prófa nýjan stofn ef við færum þessa leið, þegar hann kemur inn í íslenska lögsögu. Við getum tekið makrílinn á sínum tíma sem dæmi, sögu sem hv. þingmaður og fleiri en ég hér þekkja betur, því að ég óttast að inngrip í þetta aflahlutdeildarkerfi gæti haft neikvæð áhrif á þá vinnu sem er að fara í gang í þessum töluðu orðum og ég bind svo miklar væntingar við, mál sem hefur töluvert stærri og meiri langtímahagsmuni að mínu mati þótt við stefnum í sömu átt. Þá á ég við vinnuna sem er að fara af stað þessa daga með nefnd sem sjávarútvegsráðherra er að skipa. Þetta er þverpólitísk nefnd sem hefur ekki langan tíma. Hún hefur tíma út árið til að skila tillögum. Það sem gerir vinnuna enn meira spennandi er að í nefndinni eiga allir flokkar sem sæti eiga á þingi fulltrúa, ekki eftir þingstyrk heldur einn fulltrúa á mann svo að ljóst sé að sjónarmið flokkanna koma fram. Ég geri ráð fyrir að það sé samhljómur hjá okkur um margt.

Ég trúi því að málin verði rædd þarna af miklum krafti og hreinskilni. Það liggur fyrir að verkefni okkar er að skila tillögum að því hvernig skuli staðið að breytingum á greiðslufyrirkomulagi fyrir afnot af þjóðarauðlindum okkar inn í, til og með, heilbrigðiskerfið. Ég trúi því að sú vinna skili niðurstöðum sem hafi langtímahagsmuni í huga. Ég nýt þess að vera fulltrúi Viðreisnar í nefndinni. Ég hlakka til vinnunnar. Ég mun í anda Viðreisnar halda þar á lofti sjónarmiðum um útboðsleiðina.