146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið hér í dag til að hvetja þingheim að láta sjá sig í göngu samtakanna Pieta sem farin verður aðfaranótt laugardagsins 6. maí nk. til minningar um þá sem hafa tekið sitt eigið líf. Úr myrkri í ljósið, nefnist gangan, enda er hún gengin klukkan fjögur um nótt og inn í morgunbirtuna. Það eru nefnilega allt of margir einstaklingar hér á landi sem telja sig aldrei komast í birtuna, sem vita ekki hvert þeir geta leitað og eru orðnir það veikir að sjálfsvíg verður niðurstaðan. Við sem vöknum dags daglega í morgunbirtunni alla daga eigum að hvetja til opinnar umræðu um sjálfsvígshættuna. Ef annar sjúkdómur eða slys tækju frá okkur jafn marga og geðræn vandamál gera þá myndum við ekki ræða margt annað.

Talið er að um 5.000 manns á ári hugleiði sjálfsvíg á Íslandi, þar af eru 600 manns sem reyna sjálfsvíg samkvæmt opinberum tölum. Við þekkjum líklega öll einhvern sem hefur tekið sitt eigið líf. Þess vegna verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að grípa inn í og tala um málið. Á fyrsta stigi vandans megum við nefnilega ekki bregðast þeim sem glíma við geðræn vandamál. Ef ekkert er gert getur vandinn nefnilega fljótt undið upp á sig og versnað til muna. Við þekkjum of mörg dæmi þess.

Pieta ætlar í framtíðinni að bjóða upp á ókeypis aðgengilega þjónustu fyrir einstaklinga í sjálfsvígshugleiðingum, einstaklinga sem munu þurfa aðstoð eða kost á að fá þjónustu innan 24 stunda frá því haft var samband. Að írskri fyrirmynd verður húsið líka í íbúðahverfi og einkennist af fallegu og notalegu umhverfi þar sem allir í sjálfsvígsvanda eiga greiðan aðgang að ókeypis ráðgjöf. Við þetta er eðlilegt að styðja. Við þetta er eðlilegt að ganga inn í birtuna því það eru forréttindi að sjá ljósið á hverjum degi. Göngum saman inn í birtuna á laugardagsmorgun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)