146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær kláraðist 2. umr. um frumvarp um farþegaflutninga og farmflutninga. Það vildi svo skemmtilega til að við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd gátum sameinast um eitt nefndarálit og ég fagna því mjög. Það er ríkir nefnilega þverpólitísk sátt um það hvernig við viljum þróa þessi mál. Mig langar því að ræða hér í dag annað mál þessu tengt sem er borgarlínan, verkefni sem er mjög brýnt og mikilvægt hérna á höfuðborgarsvæðinu. Þar ríkir líka þverpólitísk sátt milli flokka sem skipa bæði borgarstjórn og bæjarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar að benda þingmönnum á að kynna sér umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármálaáætlunina þar sem þau kynna ágætlega þessa hugmynd og greina svo vel frá því hversu mikil sátt er um verkefnið.

Borgarlína gengur út á það að byggja hér upp hágæðaalmenningssamgöngur sem eru í sérrými og þar af leiðandi óháðar almennri umferð. Það mun skipta miklu máli fyrir þróun byggðar hér á höfuðborgarsvæðinu og er eina tækifærið okkar til að auka enn frekar fjölda þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur. Í allri þeirri vinnu sem fylgir borgarlínunni og svæðisskipulaginu er búið að fara vel yfir það að þetta er þjóðhagslega hagkvæmt. Það sparar þjóðfélaginu að fara í innviðauppbyggingu fyrir borgarlínu í stað þess að fara í innviðauppbyggingu fyrir stofnleiðir, að ekki sé talað um umhverfismálin, því að auðvitað skiptir þetta gríðarlega miklu máli í því samhengi.

Hér er ekki um eitthvert stríð við einkabílinn að ræða. Þetta er eins og í jafnréttisbaráttunni; það eru ekki konur á móti körlum. Eða bílar á móti almenningssamgöngum. Þetta fer mjög vel saman. Ég vona að hér í þessum sal geti náðst jafn breið sátt og náðst hefur hjá borgar- og bæjarfulltrúum hér á höfuðborgarsvæðinu.