146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[15:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Íslendingar eru öflugir lyfjaneytendur. Hér á landi nota um 55% fólks lyfseðilsskyld lyf sem er fjórða hæsta hlutfall Evrópulanda sem tóku þátt í nýlegri evrópskri heilsufarskönnun.

Í skýrslu vinnuhóps ráðherra fyrir nokkrum árum birtust dæmi um að fólk notaði allt að 48 lyfseðilsskyld lyf á 12 mánaða tímabili. Íslendingar skera sig úr með afgerandi hætti varðandi lyfjanotkun í samanburði við nágrannalöndin. Við notum tvisvar til þrisvar sinnum meira en Norðurlandabúar af örvandi lyfjum, róandi, kvíðastillandi og svefnlyfjum ásamt verkjalyfjum. Notkunin er sú mesta innan OECD-landanna og fimm sinnum meiri en í Danmörku. Notkun sýklalyfja og magasárslyfja Íslendinga er sömuleiðis meiri en annars staðar á Norðurlöndunum. Fjöldi þeirra sem fær ávísað testósteróni hérlendis er margfaldur á við nágrannalöndin og hefur notkunin tvöfaldast á síðustu tíu árum. Notkun fullorðinna á lyfjum við ofvirkni og athyglisbresti, ADHD, hér á landi hefur fjórfaldast á tíu ára tímabili og er hvergi meiri í heiminum að því er fram kemur í nýlegri rannsókn.

Um 13% allra íslenskra drengja á aldrinum 10–14 ára taka einhvers konar ADHD-lyf. Það er margfalt meira en tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, en Svíþjóð kemst næst Íslandi með 5% hlutfall. Þá er notkun þunglyndislyfja hvergi hærri meðal frændþjóðanna en hér og munar um 35–50%. Íslenskar stúlkur á aldrinum 15–24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnöldrur þeirra í Danmörku. Notendum þunglyndislyfja fjölgaði um 8.000 einstaklinga á Íslandi á milli áranna 2014 og 2016, þ.e. um tæp 22%.

Samkvæmt upplýsingum embættis landlæknis er eftirtektarvert að margir þeirra sem fá ávísað þunglyndislyfjum fá jafnframt örvandi lyf og er fjöldi þeirra sem er á slíkri samhliða lyfjameðferð alltaf að aukast.

Virðulegur forseti. Hvað er til ráða? Ég beini spurningunni jafnframt til hæstv. ráðherra. Hvað er til bragðs að taka? Er þá hamingjan sanna ekki hér eftir allt saman eins og kannanir sýna?

Tölurnar tala sínu máli. Staðreyndirnar liggja á borðinu. Við sláum öll met í lyfjaneyslu. Lyfjafræðingafélag Íslands telur að stórefla þurfi eftirlit með lyfjanotkun landsmanna. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að bæta aðgang Íslendinga að lyfjamörkuðum til að draga úr kostnaði ríkisins. Embætti landlæknis hefur fá svör. Magnús Jóhannsson, læknir hjá embættinu, sagði í viðtali fyrir skömmu að engin ein skýring væri augljós, þetta væri gömul saga. Það virðist ríkja einhvers konar lyfjakúltúr á Íslandi og hafi gert í áratugi, markaðssetningin hér sé svipuð og í nágrannalöndunum og aðgengið sömuleiðis.

Þá er það mat framkvæmdastjóra Geðhjálpar að mikil notkun kvíða- og þunglyndislyfja tengist lélegu aðgengi að geðheilbrigðiskerfinu og þeirri staðreynd að margir hafi ekki efni á sálfræðiþjónustu, en nú er viðleitni til að taka á þeim vanda. Fagfólk hjá embætti landlæknis hefur bent á ýmis atriði varðandi aðgengi að lyfjum og nefnt að á Íslandi megi allir læknar ávísa t.d. ADHD-lyfjum en annars staðar á Norðurlöndum hafi einungis sérfræðingar þær heimildir.

Landlæknisembættið telur mikla lyfjanotkun á Íslandi umhugsunarverða, ekki síst þunglyndislyfin, og telur að læknasamfélagið verði að koma með skýringar á þessum mun á Íslandi og öðrum þjóðum, hvort þunglyndi og kvíði sé t.d. algengara hér en annars staðar, hvort verið sé að ávísa þessum lyfjum óhóflega, hvort einhverjir fái lyfin sem ekki þurfa á þeim að halda eða hvort skortur sé á öðrum úrræðum við þunglyndi og kvíða en lyfjameðferð.

Tekur hæstv. ráðherra undir þessi viðhorf? Og telur hæstv. ráðherra ekki ríka ástæðu til að fjalla ítarlega um þessi málefni og leitast við að kryfja til mergjar hver sé hin raunverulega orsök þess að við skiljum okkur svo nöturlega frá öllum nágrannalöndunum í lyfjanotkun? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að gerð verði rannsókn og úttekt á hvað valdi því að Ísland hampi þeim vafasama titli að eiga heimsmet í lyfjaneyslu?

Landlæknir, Birgir Jakobsson, hefur tjáð sig á þann veg að í sannleika sagt sé hreinlega ekki ljóst hvað valdi þessari miklu neyslu og að embættið hafi takmarkaða möguleika til að komast að því, aðeins sé hægt að leiða að því getum, hann telji fullvíst að Íslendingar séu ekki innréttaðir öðruvísi en aðrar þjóðir. Að hans mati er orsakirnar fremur að finna í íslensku heilbrigðiskerfi og kerfisbreyting í heilbrigðisþjónustunni ætti að vera forgangsverkefni.

Er hæstv. ráðherra sammála þessu og mun hann vinna í þá veru sem landlæknir leggur til?

Ekki má skilja við þessa umræðu án þess að undirstrika mikilvægi góðra lyfja. Rétt og skynsamleg notkun lyfja getur lækkað annan kostnað í heilbrigðiskerfinu með færri innlögnum á sjúkrahús, styttri legutíma og færri veikindadögum, stórbættum lífsgæðum og bjargað mannslífum. Röng notkun lyfja getur á hinn bóginn skapað hættu fyrir sjúkling og haft í för með sér sóun og mikinn kostnað.

Hið sama á við um of litla notkun lyfja. Umræðan um lyfjanotkun (Forseti hringir.) má ekki vera einhliða og neikvæð. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeim aðstæðum að ekki verður setið hjá aðgerðalaus — eða hvað?