146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[15:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem við eigum hér um lyfjamál en heilbrigðisþjónusta í nútímasamfélagi snýst, a.m.k. að hluta, annars vegar um góðan aðgang að lyfjum — og þar vil ég nefna sérstaklega og segja óháð efnahag þeirra sem á þeim þurfa að halda — sem geta komið í veg fyrir ótímabæran dauða eða haldið sjúkdómum niðri og aukið þannig lífsgæði og samfélagsþátttöku fólks með alvarlega sjúkdóma. Þetta aðgengi er mjög mikilvægt en því miður hefur Ísland verið að dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum þegar kemur að innleiðingu á nýjum og dýrum lyfjum. Ég hef áhyggjur af því að við sjáum fram á að þetta muni ekki endilega batna í komandi framtíð með tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir næstu ár sem við höfum rætt hér. Hins vegar snýst lyfjaumræðan um að koma í veg fyrir ofnotkun eða misnotkun á lyfjum með því t.d. að hafa greiðan aðgang — og aftur vil ég segja óháð efnahag þeirra sem á þurfa að halda — að annars konar meðferð. Þar vil ég sérstaklega nefna sálfræðiþjónustu sem dæmi. Ég er viss um að læknar reyna eftir því sem þeir best geta að ávísa á bestu mögulegu meðferðina en þeir verða auðvitað að hafa félagslegar og fjárhagslegar aðstæður sjúklinga sinna í huga. Ef við höfum ekki önnur úrræði sem sjúklingar ráða við er hætta á því að vísað verði á lyf en ekki á önnur úrræði sem kosta einstaklinginn meira. (Forseti hringir.) Þetta verðum við alltaf að hafa í huga þegar við ræðum lyfjamálin og þegar við ræðum heilbrigðismálin í heild því að allir eiga að geta fengið bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og óháð þeim sjúkdómum sem þá hrjá.