146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[15:55]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á mögulegu vandamáli sem er í uppsiglingu hvað varðar lyfjaneyslu. Eins og einhverjir kannski vita geisar nú mikill heróínfaraldur í Bandaríkjunum. Sá faraldur er m.a. rakinn til þess hversu margir þar í landi hafa misnotað morfínskyld verkjalyf, svokallaða ópíóða. Þar til nýlega var þeim nokkuð frjálslega ávísað af bandarískum læknum. Nú hefur heróín sem betur fer aldrei náð fótfestu á íslenskum fíkniefnamarkaði en það er vel þekkt að margir fíklar nota þess í stað mjög svipuð efni sem þeir nálgast í gegnum lyfseðla, lyfseðilsskylda ópíóða svo sem Contalgin, Oxycontin og Fentanyl.

Nýlegar rannsóknir sýna að neysla þessara sterku verkjalyfja hefur aukist töluvert á Íslandi síðustu ár á meðan neyslan dróst saman í grannríkjum okkar. Í skýrslu Lyfjastofnunar frá því í október í fyrra segir að neysla þessara lyfja hafi vaxið um 18% hér á landi sl. níu ár en t.d. dregist saman um 14% í Danmörku á sama tímabili. Inni í þessum tölum eru þó aðeins þau lyf sem eru fengin í gegnum apótek hér á landi en ekki þau sem er smyglað til landsins.

Mig langar því til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hans ráðuneyti hafi einhverjar sérstakar skýringar á þessari þróun, þ.e. ekki að við skerum okkur úr eins og alltaf heldur að þessi sérstaða okkar sé að aukast enn frekar, og hvort neysla sterkra verkjalyfja virðist vera að aukast í eðlilegu hlutfalli við það sem við þekkjum úr öðrum löndum.

Ég efast ekki um að þessar tölur geti átt sér eðlilegar skýringar en þær virðast við fyrstu sýn vera nokkurt áhyggjuefni miðað við þau lýðheilsuáhrif sem við vitum að aukin neysla þessara sterku lyfja getur haft í för með sér.