146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[15:59]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir þessa nauðsynlegu og mikilvægu umræðu. Fyrst vil ég segja að það er mjög mikilvægt að unnin verði stefnumótun í heilbrigðismálum. Við verðum að skilgreina þjónustuna, hvernig eigi að veita hana, aðgengið að henni og hvaða þjónustu eigi að veita hvar. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að líta til forvarna innan heilbrigðiskerfisins, auka aðgengi að sálfræðingum og að þjónusta sálfræðinga verði einn af þeim þáttum sem eru í greiðsluþátttökukerfi sjúklinga til að fólk geti gert sér það mögulegt að sækja þessa þjónustu þegar þörf er á.

Á síðasta kjörtímabili var byrjað á því átaki að fjölga stöðugildum sálfræðinga innan heilsugæslunnar. Er það vel og verkefninu hefur verið hraðað. Auk þessa þarf að styrkja þá aðila sem vinna við t.d. atferlismeðferð, varðandi stuðning innan skólakerfisins, það að stytta biðlista eftir greiningum svo hægt sé að vinna með snemmtæka íhlutun og bregðast við fyrr en gert er í mörgum tilfellum í dag.

Það hefur einnig komið fram í umræðunni að nauðsynlegt sé að góð lyf séu til og fólk hafi aðgang að þeim bestu lyfjum sem eru á markaði í dag og eru til erlendis. Því langar mig að segja hér að þó að umræðan snúist um misnotkun lyfja er nauðsynlegt að við eigum lyf til að fólk geti lifað betra lífi þar sem við á, að við leitum eftir samstarfi við t.d. Norðurlöndin um lyfjaútboð og fáum þannig betri lyf á hagkvæmara verði, betri lyf en við erum í mörgum tilfellum að bjóða upp á í dag.