146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:12]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um lyfjanotkun hefur dálítið mikið beinst að geðlyfjum og svefnlyfjum og reyndar lyfjum sem unglingar þurfa á að halda vegna hegðunarvandamála, rítalín o.fl. En ég ætla þó að byrja á að segja að ég tel að lyf séu einhver merkasta uppfinning mannsandans og hafi bætt lífsgæði og dregið úr og útrýmt heilu sjúkdómunum. En það ber náttúrlega að fara rétt með alla hluti og eru lyf þar ekki undanskilin.

Ég vil t.d. nefna sjúkdóm eins og berkla. Það urðu alger umskipti um miðja síðustu öld í meðhöndlun berkla. Það hefur alla vega tekist að útrýma þeim á Vesturlöndum. Sömuleiðis var það um miðja síðustu öld að verulegar framfarir urðu í geðlyfjum. Þær gerbreyttu aðstöðu þeirra sem glímdu við geðsjúkdóma. Stofnanavist varð ekki hin eina lausn heldur var hægt að koma fjöldamörgum einstaklingum til starfa aftur.

Ég velti oft fyrir mér hvort mikil notkun þunglyndislyfja sé góð eða slæm. Það var nefnt áðan að Íslendingar væru með hamingjusömustu þjóðum. Kannski er þar samband á milli. En ég segi stundum líka við sjálfan mig: Er þjóðin nógu þreytt? Það er hægt að laga ýmsa sjúkdóma með því að taka á og verða þreyttur. Ég sef oft miklu betur þegar ég er þreyttur. Mér líður oft miklu betur þegar ég er þreyttur. Kannski er hægt að lækna ýmsa sjúkdóma með einföldum lausnum.

En virðulegi forseti, tími minn er þrotinn. Takk fyrir.