146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:18]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Jóna Sólveig Elínardóttir varpaði því fram hvort notkun þunglyndislyfja væri neikvæð. Ég tel alls ekki svo vera því að eins og allir þegnar landsins vita geta lyf, þunglyndislyf, bætt lífsgæði og jafnvel gert kraftaverk og bjagað mannslífum. Varðandi aðra spurningu, um það hvort gerðar hafi verið rannsóknir á notkun slíkra lyfja, þá getur hæstv. ráðherra eflaust svarað því betur en ég. Ég veit þó að til eru norskar rannsóknir, þar sem Noregur er langur og mjór, og það er nákvæmlega enginn munur á milli landshluta. Skammdegisþunglyndismýtan stenst því sennilega ekki.

Mig langar að varpa fram þremur spurningum til hæstv. ráðherra í lokin. Í tíð ráðherra eftir ráðherra hefur verið rætt um samstarf við Norðurlönd um sameiginleg lyfjakaup. Lítið virðist hafa þokast en á orðum ráðherra fyrir nokkrum vikum mátti skilja, ef mig misminnir ekki, að einhverjar fréttir gætu verið á leiðinni. Er eitthvað að gerast í því að Norðurlöndin taki sig saman til að ná hagkvæmari lyfjainnkaupum, hæstv. ráðherra? Í aðdraganda kosninga fjallaði Björt framtíð um að hún myndi beita sér af einurð fyrir því að menn fengju öll þau bestu lyf til Íslands sem völ væri á. Verður það veruleikinn? Er búið að fjármagna þau fyrirheit hæstv. ráðherra?

Að lokum, og mig langar að biðja ráðherra hæstv. að byrja á þeirri spurningu og ég endurtek fyrri spurningu mína. Ég vil gjarnan heyra afstöðu ráðherra til þess að farið verði ofan í saumana á því, af fræðimönnum og fagfólki, hvernig á því stendur að Íslendingar neyta meiri lyfja en aðrir; sem sagt meira en aðrir heims um ból. Ég hef væntingar um greinargott svar. Mun ráðherra beita sér fyrir sérstakri rannsókn á þessu atriði sem er ekki lítið? Heilsa fólks getur verið í húfi svo að ekki sé minnst á þann gríðarlega kostnað og jafnvel sóun sem í þessu getur falist.