146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka fyrir hana. Ég held að viðeigandi sé að við förum yfir stöðu þessara mála nú í byrjum maímánaðar þegar hið nýja greiðsluþátttökukerfi er loksins komið til framkvæmda. Ég fagna því fyrst og fremst vegna þess að ég tel að stefnan í því sé rétt, bæði hvað varðar greiðsluþátttökuþakið og þann vísi að tilvísunarskyldu sem er inni í kerfinu. Jafnvel þótt einhverjir hnökrar kunni að verða á framkvæmdinni og byrjunarörðugleika þá er það til þess að sigrast á en ekki gefast upp. Það er afar mikilvægt að staðið verði við þakið upp á 50 þús. kr. sem hér náðist samstaða um í fyrra og var í raun forsenda afgreiðslu málsins með þeim hætti sem raun ber vitni og við þær aðstæður sem þá voru uppi á þinginu í stað þeirra 92 þús. kr. á ári sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Þetta er mikilvægt vegna þess að samkomulag á að halda en þó aðallega vegna þess að það er mikilvægt vegna þeirra markmiða sem menn ætla sér að ná fram í kerfinu. Því hærra sem þakið væri í þeim mun meiri mæli væri í raun verið að láta aðra sem minna nota þjónustuna bera kostnaðinn af því að verja hina langveiku og það var ekki ætlunin. Þess vegna verður að tryggja nægjanlega nýja fjármuni inn í kerfið þannig að þetta gangi upp.

Í öðru lagi tel ég að mikilvægt sé, þótt vissulega sé sjónarmið að láta reyna á það um stund hvernig þetta gengur, að menn hafi framtíðarstefnuna klára. Hún á að mínu mati að vera sú að taka aðra þætti þarna inn undir, sálfræðikostnað, tannlækningakostnað, ferðakostnað fólks af landsbyggðinni sem þarf að leita sér sérhæfðrar þjónustu, og æskilegt framtíðarmarkmið væri að sameina þökin varðandi lyfjakostnað og heilbrigðiskostnað. Þá held ég að við getum farið að vera sæmilega sátt við þetta, ef okkur væri búið að takast þetta allt saman og tryggja þannig fjármuni til þessa, að kostnaðurinn væri engum ofviða, enda er miklu sanngjarnara þegar upp er staðið að dreifa kostnaði á alla landsmenn og nota til þess hið almenna tekjuöflunarkerfi (Forseti hringir.) ríkisins frekar en að eingöngu hræra kostnaðinum til (Forseti hringir.) innan þess mengis í samfélaginu sem á hverjum tíma þarf á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.