146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:39]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Til umræðu er eitt af því sem ég tel vera eitt af risaskrefunum sem verið er að stíga í átt að betra og í þessu tilviki sannarlega sanngjarnara heilbrigðiskerfi. Umræða um heilbrigðiskerfi er skiljanlega margþætt, enda víðfeðm og mikilvæg. Hér er til umræðu angi kerfisins sem snýr fyrst og fremst að sjúklingunum sjálfum og mikilli og sanngjarnri réttarbót þeim til handa. Sanngjarnri, segi ég, því að með nýju greiðsluþátttökukerfi sjúklinga er hugsunin að þeir sem þurfa á mestri aðstoð að halda greiði hlutfallslega minnst. Markmiðið er að verja sjúklinga fyrir háum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og felur í sér hámarksþak á hlutdeild einstaklinga í kostnaði.

Forgangsröðun í þágu þessa er skýr þar sem gert er ráð fyrir að framlög til þessa nýja kerfis verði á árinu 1 milljarður kr. og framlögin verði 1,5 milljarðar á ári þegar áhrif þess hafa að fullu komið fram. Samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að draga enn frekar úr greiðsluþátttöku sjúklinga á næstu fimm árum og er gert ráð fyrir 3,5 milljörðum til viðbótar í þeim tilgangi.

Ég tel að hér sé um að ræða risastórt skref í átt að sanngjarnri dreifingu og lækkun byrða vegna hvers konar sjúkdóma. En þegar um risastór skref er að ræða kallar það einnig á risastóra kerfisbreytingu og það munu á næstu vikum án efa koma upp einhverjir hnökrar í afmörkuðum öngum kerfisins sem mun þurfa að skoða betur. Ég hef fulla trú á að allir hlutaðeigandi muni bregðast við slíkum athugasemdum með þá sanngjörnu heildarhugsun kerfisins sjálfs í forgrunni sem er mest í þágu hinna veikustu.