146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:43]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að þakka fyrir tækifærið til að fá að ræða þá jákvæðu þróun sem við sjáum með nýju greiðsluþátttökukerfi fyrir sjúklinga. Með stórauknum útgjöldum til velferðarmála og heilbrigðismála sem við sjáum stað í fjármálaáætluninni gerum við metnaðarfulla atrennu að því að mæta eins og hægt er, án þess að ógna stöðugleika, uppsafnaðri þörf og vöntun í kerfinu.

Nú þegar hef ég fengið jákvæðar fregnir af virkni hins nýja greiðsluþátttökukerfis og eru þó ekki nema nokkrir dagar síðan það tók gildi. Fólk er nú þegar farið að njóta góðs af þeirri breytingu. Ég hef heyrt af fólki sem áður veigraði sér við því að leita sér t.d. aðstoðar sjúkraþjálfara eða annarra sérfræðinga sem finnst hreinlega eins og þungu fargi sé af því létt. Það treystir sér núna til þess að sækja sér aðstoð. Það er gríðarlega jákvætt. Við hljótum öll að fagna því.

Mig langar að taka undir spurningu sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir bar upp í framsöguræðu sinni um hvort og þá hvernig hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að mæta þeim sem búsettir eru úti á landsbyggðinni og þurfa að sækja sér aðstoð í bæinn. Eru einhver áform uppi varðandi þetta?