146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[17:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil líka þakka fyrir alveg sérstaklega góða umræðu. Ég fagna því að ég heyri mikinn samhljóm á Alþingi um að við eigum að stefna og séum að taka stórt skref í að jafna aðgengi sjúklinga að heilbrigðiskerfinu, m.a. með því að greiðslujafna þannig að það sé ekki lotterí hvað kemur fyrir eða hvað hrjáir mann, þ.e. að það hafi afgerandi áhrif á fjárhag þeirra sem veikjast.

Það er líka mjög mikilvægt í umræðunni að minnast þess að það var þverpólitísk ákvörðun síðasta Alþingis, og ég heyri ekki betur en fulltrúi Viðreisnar, sem er eini flokkurinn á Alþingi sem ekki var hér á síðasta kjörtímabili, sé sammála því grundvallarprinsippi, að jafna þátttökuna, að auka aðgengi með því að lækka heildargreiðsluþátttöku sjúklinga. Það var ákvörðun velferðarnefndar á síðasta ári sem við höfum tekið undir og tekið okkur til fyrirmyndar í reglugerðinni að við skyldum nota aukafjármuni, sem er 1 milljarður á þessu ári, 1,5 milljarðar á því næsta og uppsafnað á tímabili fjármálaáætlunar upp í 3,5 viðbótarmilljarða til að lækka greiðsluþátttöku almennings, að við einbeitum okkur að því alla vega til að byrja með að nota þá fjármuni til að lækka byrði barnafjölskyldna, öryrkja og aldraðra, sem eru þeir hópar sem eru líklegastir til að þurfa að nota heilbrigðisþjónustu mikið, en líka þeir hópar sem það hefði verst áhrif fyrir að hafa hátt greiðsluþátttökuhlutfall.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni: Ég vil stefna og stefni að því að kostnaður langveikra, sálfræðikostnaður, tannlæknakostnaður, (Forseti hringir.) ferðakostnaður og lyfjakostnaður verði færður undir kerfið en ég tel mikilvægt þegar við tökum slíka risa-grundvallarkerfisbreytingu í gagnið að við ákveðum forgangsröðunina þar aðeins eftir reynslunni.

En ég þakka aftur fyrir mjög góða umræðu og treysti því að við tökum hana áfram og aftur og aftur.