146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar hvað varðar hlutverk Landmælinga Íslands um gerð, viðhald og miðlun stafrænna þekja og landupplýsinga. Frumvarp þetta hefur áður verið lagt fram á Alþingi en náði ekki afgreiðslu fyrir þinglok.

Tilefni frumvarps þessa eru þær miklu breytingar sem hafa orðið á tækni varðandi öflun, notkun og miðlun stafrænna landupplýsinga og verulega aukningu í notkun á slíkum upplýsingum. Landupplýsingar eru gögn sem tengjast beint eða óbeint sérstakri staðsetningu eða landsvæði, en algengt er að slíkar upplýsingar séu settar fram á kortum. Landupplýsingar gefa t.d. margvíslegar upplýsingar um landsvæði, um jarðveg, landnotkun, samgöngur og mannvirki. Landupplýsingar eru því grundvallargögn um umhverfi og náttúru og afar mikilvægar við framkvæmd tiltekinna verkefna. Í því samhengi má nefna upplýsingar um stjórnsýslumörk, en þau skilgreina m.a. mörk sveitarfélaga og umdæmi sýslumanna, auk þess að afmarka friðlýst svæði og þjóðgarða. Landupplýsingar eru nýttar við stefnumótun stjórnvalda á ýmsum sviðum, svo sem á sviði framkvæmda, skipulagsmála og umhverfismála. Slík gögn eru einnig afar mikilvægur hlekkur við vöktun á náttúruvá og við framkvæmd almannavarna. Þá eru landupplýsingar mikilvægar til að afmarka lönd og lóðir, búa til eignakort, til þess að tryggja landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum einhlíta og lögformlega skráningu eignamarka lands og til að birta þeim sem á þurfa að halda þinglýstar upplýsingar um landamerki og lóðamörk.

Notkun almennings á landupplýsingum hefur aukist mikið undanfarin ár, m.a. í tengslum við notkun snjallsíma og spjaldtölva, þar sem stafræn landakort og loftmyndir eru samofin öðrum hugbúnaði, svo sem við leiðsögn í ökutækjum. Vegna þess eru gerðar sífellt meiri kröfur um betri og nákvæmari landupplýsingar á yfirborði jarðar og að slík gögn séu aðgengileg án hindrana, t.d. vegna ferðaþjónustu og útivistar. Mikilvægt er að tryggja aukið aðgengi að nákvæmum landupplýsingum um Ísland til að þær nýtist betur en nú er. Landupplýsingar eru t.d. grundvallargögn fyrir björgunarsveitir, svo sem þegar leitað er að týndu fólki. Þá gagnast nákvæmar landupplýsingar einnig við ferðalög hér á landi og geta komið í veg fyrir slys, svo sem þegar ferðast er yfir snævi þakið land að vetri til.

Í frumvarpi þessu er því í fyrsta lagi lagt til að það lögbundna hlutverk Landmælinga Íslands að sjá til þess að komið verði upp landupplýsingagrunnum, þeim viðhaldið og miðlað, takmarkist ekki lengur við gögn í mælikvarðanum 1:50.000 eins og nú er í gildandi lögum, heldur verði með þeirri nákvæmni sem þörf er á hverju sinni og tækni leyfir. Telja verður að sú takmörkun laganna sem nú er sé ekki í samræmi við kröfur nútímans, en hún hefur leitt til þess að ýmsar ríkisstofnanir og sveitarfélög hafa þurft að leigja aðgang að nákvæmari gögnum að einkaaðilum.

Með frumvarpinu er ekki ætlunin að Landmælingar Íslands hefji sjálfar framleiðslu á þeim grunngögnum sem nauðsynleg eru til þess að byggja upp landupplýsingagrunn í meiri nákvæmni en 1:50.000, það er ekki lagt til. Þessi grunngögn eru nú þegar til staðar hjá einkaaðilum, auk þess sem ljóst er að framleiðsla Landmælinga á slíkum gögnum myndi kalla á verulega auknar fjárheimildir til stofnunarinnar. Frumvarpið gerir því eingöngu ráð fyrir að Landmælingar Íslands sjái til þess að komið verði upp landupplýsingagrunni, honum viðhaldið og miðlað í þeirri nákvæmni sem þörf er á hverju sinni og tækni leyfir.

Gengið er út frá því að landupplýsingar sem Landmælingar Íslands og aðrar stofnanir íslenska ríkisins munu kaupa til að koma upp, viðhalda og miðla landupplýsingagrunni, verði keyptar eða leigðar af einkaaðilum, svo sem á grundvelli útboða.

Ég tel mjög skynsamlegt að einkamarkaðurinn sjái um framleiðslu landupplýsinga sem ríki og sveitarfélög þurfa á að halda við framkvæmd lögbundinna verkefna. Jafnframt tel ég mikilvægt að þær landupplýsingar sem keyptar verða með opinberum fjármunum verði gerðar aðgengilegar og miðlað til annarra stjórnvalda, sveitarfélaga, almennings og fyrirtækja. Það er einfaldlega góð ráðstöfun á skattfé.

Frumvarpið gerir því ráð fyrir að nákvæm landfræðileg gögn verði áfram keypt af einkaaðilum, en að þau verði keypt í meira mæli með þeim skilmálum að dreifing þeirra til þriðja aðila verði heimil. Með frumvarpinu er þó ekki lagt til að einn aðili sjái um kaup á landupplýsingum fyrir ríki og sveitarfélög og eru því engin ákvæði þess efnis í frumvarpinu.

Í frumvarpinu er ekki tilgreint með hvaða hætti Landmælingum Íslands er ætlað að sinna þessu breytta hlutverki, enda ekki ástæða til þess að lögfesta tiltekna leið fyrir stofnunina til að framfylgja hlutverkinu. Landmælingar Íslands nýta fjarkönnunargögn sem aflað er með flugvélum eða gervitunglum aðallega við endurskoðun korta og landupplýsingagrunna og leitast stofnunin við að afla slíkra gagna í samstarfi við aðra opinbera aðila til að ná sem mestri hagkvæmni.

Stofnunin vinnur einnig að þróun og kynningu á nýjum aðferðum við úrvinnslu og notkun gagna. Hlutverk Landmælinga Íslands hefur þegar breyst frá því að framleiða gögn yfir í að sinna verkefnum sem tengjast gæðaeftirliti á gögnum sem aðrir afla, öryggi almennings og grunngerð landupplýsinga.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að í lögum um landmælingar og grunnkortagerð verði kveðið á um það hlutverk Landmælinga Íslands að koma upp, viðhalda og miðla landupplýsingagrunnum í samráði við önnur stjórnvöld. Ekki er hér um að ræða nýmæli, heldur felur breytingin í sér samræmi við lög nr. 44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar upplýsingar, þar sem þetta hlutverk stofnunarinnar kemur fram. Markmið þeirra laga er að byggja upp og viðhalda grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á vegum stjórnvalda og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum um Ísland. Landmælingar Íslands fara með framkvæmd þeirra laga, en þau taka til ýmissa landupplýsinga, svo sem samgangna, friðlýstra svæða, jarðfræði, stjórnsýslumarka og heimilisfanga. Með þessari breytingu eru stigin skref að því að koma upp landupplýsingagrunnum hér á landi sem hafa að geyma upplýsingar sem stjórnvöld hafa undir höndum á hverjum tíma.

Að lokum er lagt til í frumvarpinu að gjaldtökuheimild Landmælinga Íslands verði felld brott.

Tillaga þessi er í samræmi við það að gögn Landmælinga Íslands hafa verið gjaldfrjáls frá því í janúar 2013, en sú breyting hefur leitt til stóraukinnar notkunar á þessum gögnum, m.a. í nýsköpun.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.