146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Við erum sammála um mikilvægi málsins. Hún spyr um mat mitt á því að málið nái í gegn. Ég tel það mjög líklegt. Það er komið í gegnum ríkisstjórn. Eins og var farið yfir, bæði af mér og hv. þingmanni, hefur málið verið lagt fram áður og það er einhver pólitík í því, að því er virðist, að sumir setji spurningarmerki við málið.

Mér hefur dálítið fundist þegar ég hef kafað ofan í þau sjónarmið að jafnvel sé um misskilning að ræða. Það er engin breyting á því að Landmælingar munu halda áfram að kaupa gögn af einkaaðilum og Landmælingar eru ekki lengur í því að búa til kort. En það er mjög mikilvægt, og ég tek undir með hv. þingmanni, að þau gögn sem eru keypt fyrir almannafé nýtist almenningi og að þessi stofnun sé jafnsett öðrum stofnunum, af því að það er einsdæmi hjá þessari stofnun að mega ekki birta eða höndla með gögn í nógu góðri upplausn sem tæknin krefst nú um stundir. Við erum einfaldlega að færa það til jafns við aðrar stofnanir eins og Vegagerðina, líka til þess að mismunandi stofnanir þurfi ekki að vera að kaupa sömu gögnin tvisvar eða þrisvar sinnum. Það væri léleg ráðstöfun á almannafé.