146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[18:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram og lýsi því yfir að hún á stuðning minn vísan þegar að því kemur að takast á við það, bæði í þingsal og í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Þar mun verða fjör, heyri ég, miðað við þær umræður sem átt hafa sér stað í dag. Það verður gaman að sitja með kollegum mínum þar, m.a. hv. þm. Pawel Bartoszek, og ræða ýmsa þætti þessa máls út frá Google Maps og fleiru. Ég á gott í vændum þegar kemur að gögnum á gögn ofan og gögn ofan á það, svo ég vitni eftir minni í ummæli hv. þingmanns sem hefur umtalsvert betri þekkingu en ég á slíkum gagnagrunnum. Ég hlakka til að takast á við þetta mál þar. Það hefur verið farið ágætlega yfir forsöguna og engin ástæða til að gera það aftur, hæstv. ráðherra þekkir hana vel sjálf, og hér gengur í salinn hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sem gerði það ágætlega.

Það er náttúrlega bagalegt að við séum að ræða mál undir vor 2017 sem tekur á athugasemdum sem komu fram í febrúar 2011, að rétt væri að grípa til. Það er náttúrlega engan veginn við núverandi hæstv. ráðherra að sakast sem hefur lagt þetta mál hér fram nú, en þörfin hefur verið skýr og tillögurnar eru, eins og segir í greinargerðinni, að koma á fót almennum landupplýsingagrunni, nákvæmum og ítarlegum landupplýsingum sem stjórnvöld þurfa á að halda vegna lögbundinna verkefna. Þörfin hefur verið skýr nokkuð lengi og varðandi tillöguna er vilji hjá ákveðnum stjórnmálaflokkum í það minnsta og það náði það langt að málið var lagt fram á þarsíðasta þingi.

Ég er ánægður með þetta frumvarp og þessa greinargerð. Það er margt í henni sem er hægt að taka undir og er vel rökstutt. Ég er t.d. sammála þessari setningu, með leyfi forseta:

„Aðgengi að gögnum og upplýsingum hefur aukist verulega með tilkomu internetsins.“

Ég ætla að leyfa mér að taka undir þau orð og ekki búa til ágreining um hana, þó að það væri vissulega skemmtilegt að við færum í rökræður þar um.

Ég velti því fyrir mér, verði þetta frumvarp að lögum, sem ég vona að gerist á þessu vorþingi, hvort nógu vel sé um hnútana búið í næstu skrefum. Með því er ég ekki að setja mig á móti þessu máli, alls ekki, ég er frekar að reyna að styðja það og tryggja að það verði nægilega vel um það búið þannig að það skili tilætluðum árangri, eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er lagt til að Landmælingar Íslands sjái til þess að komið verði upp landupplýsingagrunni, honum viðhaldið og miðlað í þeirri nákvæmni sem þörf er á hverju sinni og tækni leyfir.“

Svo aðeins síðar:

„Nauðsynlegt er að sú ríkisstofnun sem fer með landmælingar og grunnkortagerð geti unnið með og miðlað landupplýsingum með þeirri nákvæmni sem nauðsynleg er á hverjum tíma og miðlað til annarra stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings eftir því sem þörf er á hverju sinni.“

Hér er ágætlega farið yfir þörfina og nákvæmnina og nauðsynina á þessu. Þess vegna er ágætt að setja sig aðeins inn í þær umsagnir sem komu fram um málið á sínum tíma. Þær eru mjög margar og mikill meiri hluti þeirra jákvæðar og taka vel í þetta, en þar eru ágætisábendingar sem við getum nýtt okkur í þeirri vinnu sem fram undan er, bæði í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hér í salnum, en ekki síst hæstv. ráðherra í málinu.

Þjóðskrá Íslands skilaði inn umsögn þar sem er fjallað um hagsmuni Þjóðskrár. Ef það er eitthvað sem er nátengt hagsmunum þjóðarinnar þá hljóta það að vera hagsmunir Þjóðskrár. Í gildi eru þjónustusamningar milli stofnunarinnar og einkaaðila um afnot af myndkortum. En hverjir eru hagsmunir stofnunarinnar, þ.e. Þjóðskrár, þegar að þessum málum kemur? Það segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Að til séu myndkort af öllu landinu sem eru uppfærð með reglubundnum hætti. Telur stofnunin að nauðsynlegt sé að regluleg endurnýjun myndkorta eigi sé stað af þéttbýli á 1–3 ára fresti með innan við 20 cm greinihæfni til að fylgja eftir byggðaþróun, dreifbýli (<200 m.y.s.) á innan við 5 ára fresti með um 50 cm greinihæfni til þess að fylgja eftir breytingum á landnotkun og þróun búsetu, óbyggðum á innan við 10 ára fresti með um 50–100 cm greinihæfni og oftar á þeim svæðum þar sem breytingar eru á landnotkun, t.d. vegna virkjanaframkvæmda eða annarra stórframkvæmda eða vegna breytinga af völdum náttúrunnar svo sem vegna eldgosa, flóða eða annarra hamfara.“

Það er þetta sem við verðum að tryggja að viðhaldist og sé aðgengilegt Þjóðskrá, hvort sem er í gegnum Landmælingar með fjárveitingum til kaupa eða til að leigja gögnin, eða að þau gögn verði framleidd með einhverjum öðrum hætti. Við erum að tala um að á eins til tveggja, þriggja ára fresti þurfi að uppfæra gögnin, t.d. þegar kemur að þéttbýli. Þetta er því ekki eitthvað sem við afgreiðum bara og hendum svo frá okkur og látum malla, eitthvað sem ekki þarf að huga að meir. Það þurfa að fylgja fjármunir, sama hvort þeir verða nýttir til kaupa eða til að leigja, eins og kemur fram í frumvarpinu. Það þarf í það minnsta að tryggja að þessi gögn verði til og uppfærð.

Sjálfur kannast ég aðeins við að hafa þurft að eiga við hversu gögn eru óaðgengileg á ýmsum sviðum og hafa verið á síðustu árum á Íslandi. Í umsögn Þjóðskrár segir líka, með leyfi forseta, um hagsmuni stofnunarinnar:

„Að önnur nákvæm landfræðileg gögn séu aðgengileg á viðráðanlegu verði sem nýtast mun stofnuninni m.a. við afmörkun landeigna og framkvæmd fasteignamats, til að mynda strandlína, hæðarlíkan, gróðurþekja, vatnafar, samgöngur o.s.frv.“

Ég starfaði lengi sem blaðamaður og skrifaði m.a. greinarflokk um það hvernig eignarhaldi á landi og jörðum á Íslandi var háttað. Þar rákum við okkur fljótlega á að erfitt var að fullyrða nokkuð um það svo vel færi. Gagnagrunnar með skýrum landamerkjum, kort, myndir, voru náttúrlega ekki til. Það var einfaldlega ekki hægt að segja með fullri vissu hvar allar jarðir enduðu og næsta byrjaði, þrátt fyrir að hafa jafnvel skipt um hendur og gengið kaupum og sölum um langan tíma. Allt sem gengur í þá átt að opna þessa grunna er því gott, en það þarf líka að tryggja að þeim sé viðhaldið, þeir séu styrktir og bættir.

Það væri athyglisvert, hvort sem það er hér eða í máli ráðherra, ef hæstv. ráðherra hyggst taka afstöðu til málsins eða við skoðum það innan nefndarinnar, að velta líka fyrir sér því sem kemur fram í umsögn Vegagerðarinnar. Þar er tekið undir frumvarpið, sagt að það sé jákvætt og í því horft til framfara, en eftirfarandi er velt upp, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir framangreinda kosti virðist líklegt að landupplýsingagögn Landmælinga Íslands verði a.m.k. fyrst um sinn ekki með þeirri nákvæmni að þau uppfylli kröfur til hönnunar mannvirkja. Því má reikna með að Vegagerðin þurfi áfram að verja fjármagni til landmælinga, og þá a.m.k. í sumum tilfellum í samstarfi við Landmælingar eins og verið hefur. Spurningin er hvort og þá hvenær Landmælingar Íslands munu hafa yfir nægilega nákvæmum landupplýsingum að ráða, til vinnu við deiliskipulag og til hönnunar vega, gatna, hafna og alls kyns lagna, hvort sem er í dreifbýli eða þéttbýli.“

Þetta er spurning sem velt er upp og við þurfum að hafa í huga þegar við vinnum frumvarpið áfram og mun væntanlega koma í ljós í starfinu, verði frumvarpið að lögum. En það þarf að huga að því að hvar sem upplýsingarnar eru framleiddar verði þær nægilega góðar og aðgengilegar og opnar öllum.

Að lokum vil ég ítreka að allt það sem opnar aðgang og aðgengi að gögnum hins opinbera er til hins góða. Í raun ættu öll opinber gögn að vera opin nema einhverjar sérstakar aðstæður skýri eða hamli því. Það ætti í raun og veru að snúa við sönnunarbyrðinni, ef ég leyfi mér að taka svo bjánalega til orða, að reglan sé sú að gögn séu opin nema eitthvað sérstakt réttlæti að svo sé ekki.