146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hinn hlutinn sem mig langaði að nota andsvarstímann til varðar 22. gr., um sölu á uppgræddu landi í eigu ríkisins og forkaupsrétt. Aftur ber ég saman við Skógræktina þar sem gerður er 40 ára samningur og það er skýrt að ef menn brjóta hann eða segja honum upp þurfi að kaupa eða selja þau verðmæti sem þar hafa orðið undir.

Í landgræðslunni er þetta auðvitað sögulegt. Það er til fullt af jörðum, jarðarbútum, sem mér vitanlega er alveg óljóst hvort Landgræðslan á eða fékk til uppgræðslu og algjörlega óskýrt hvernig eignarhald á þeirri jörð eða þeirri spildu er og þar af leiðandi þeim verðmætum sem þar hafa orðið til.

Mér sýnist að samkvæmt þessari grein sé það skýrt, alveg eins og gerð var breyting á jarðalögum, að fyrri eigandi eða eigandi hafi forkaupsrétt. Þá spyr ég: Er það alveg skýrt hvernig eignarhald á öllum þeim spildum sem Landgræðslan hefur haft til uppgræðslu er háttað? Er það kannski í einhverjum tilvikum óljóst hvort jörðinni eða landspildunni hafi verið afsalað til Landgræðslunnar, af því að ekki hafa legið fyrir samningar eins og í tilfelli Skógræktarinnar, skýrir 40 ára samningar um réttindi hvors aðila, heldur er það miklu óljósara? Er í raun og veru með greininni verið að segja að allt land þar sem Landgræðslan hefur verið að störfum sé eign Landgræðslunnar hér með, að það þurfi að fara í söluferli (Forseti hringir.) og forkaupsrétturinn sé þeirra? Hvað þýðir (Forseti hringir.) að það skuli sett meðferð (Forseti hringir.) um nýtingu þess? (Forseti hringir.) Mér heyrðist ráðherra nefna áðan (Forseti hringir.) að það væri ekki krafa um (Forseti hringir.) landbúnaðarnot af því landi.