146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mína til hv. þingmanns mátti ekki skilja þannig að ég væri á móti þessari hugmynd enda held ég að hún sé ágæt. Ég var bara að velta vöngum yfir því hvort flokkur hv. þingmanns væri búinn að útfæra hugmynd um eina auðlindastofnun, staðsetningu hennar og starfsemi. Hér erum við fyrst og fremst að fjalla um málaflokkinn, landgræðsluna, þótt vissulega komi landgræðslustofnunin og landgræðslustjóri þar inn.

Starf framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs er nú eiginlega frægt því að í landinu eru lög um að það megi auglýsa starf án staðsetningar. Það var auðvitað hugsað þannig að þá væri möguleiki fyrir fólk úti á landi að vinna hjá ríkisstofnun sem hefði höfuðstöðvar í Reykjavík en eina starfið sem mér vitanlega hefur verið ráðið í samkvæmt þessu var starf framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs af þáverandi umhverfisráðherra Samfylkingarinnar, ef ég man rétt. Framkvæmdastjórinn var þá staðsettur í Reykjavík þó að þjóðgarðurinn væri í kringum Vatnajökul. Þetta er svolítið frægt dæmi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í annað atriði sem hann fór ekkert inn á í ræðu sinni en ég vék að í andsvari við hæstv. ráðherra. Hv. þingmaður talar um mikilvægi þess að taka þessa málaflokka saman. Nú er stuðningur við skógrækt og allt umhverfi, þar með taldir samningar, í mjög föstum skorðum, 40 ára samningar, greiddur allt að 97% kostnaður við skógræktina — það er rétt hjá hv. þingmanni að gæslumenn lands eru gjarnan þeir sem búa á landinu. Bændur græða landið, frábært verkefni, 640–650 bændur hafa tekið þátt í því fyrir utan fjallskilafélög, uppgræðslufélög og landgræðslufélög, allt í sjálfboðavinnu sem menn leggja verulega fjármuni til. Sveitarfélögin leggja þá til, en Landgræðslan hefur ekki lagt mikið til og ekki ríkisvaldið. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því? Teldi hann að við það að færa þessa tvo málaflokka saman ætti hinn opinberi (Forseti hringir.) fjárstuðningur að vera sambærilegur?