146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég klóra mér aðeins í kollinum yfir þeim tón sem mér finnst kominn í umræðuna og viðbrögð hæstv. ráðherra við góðfúslegum ábendingum hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar um villur í frumvarpinu. Sjálfur sit ég í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og mun því þurfa að taka þetta mál til skoðunar. Mér finnst ekki hægt að afgreiða það eins og það sé ekki neitt neitt að það séu villur þar sem stendur „landgræðsla“ í einu frumvarpi en „skógrækt“ í hinu á vitlausum stöðum. Mér finnst að menn eigi að taka það alvarlega ef einhver hefur áhyggjur af því að þetta geti bent til fljótfærni. Til að slá tón til mótvægis þeim furðulega tón sem mér fannst hafa komið hér orti ég eftirfarandi vísu til hæstv. umhverfisráðherra:

Í landgræðslufrumvarpi hef mig flækt

svo finn ekki skóg vegna greina.

Hvort les ég hér lögin um skógarins rækt

eða landgræðslu — hvað ertu´ að meina?

Hef ég þá farið með fyrstu eigin vísu í þessum ræðustól og ætla að snúa mér að öðru.

Það er gott að hv. formaður Framsóknarflokksins er hér enn því að ég ætla aðeins að taka upp þráðinn frá samtali hans við hv. þm. Andrés Inga Jónsson, enda lít ég svo á að hér séu óformlegar stjórnarmyndunarviðræður hafnar um þá ríkisstjórn sem taka mun við völdum sem fyrst þegar við setjum niður fyrir okkur hvernig best verður [Hlátur í þingsal.] farið með þessar stofnanir. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á ákveðna hluti varðandi sameiningu stofnana sem þurfi að hafa í huga og lýsti sig nú ekki andsnúinn því. En að öllu gamni slepptu er það nú kannski það sem mig langaði að koma aðeins betur inn á. Það er ekki bara verið að snúa út úr máli eða drepa því á dreif eða ræða ekki efni frumvarpsins, eins og hæstv. ráðherra kom inn á og taldi ekki þurfa að svara ábendingum hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar þegar kæmi að þessu. Auðvitað er það efni þess máls sem við ræðum hér þar sem lagt er fram frumvarp til laga um landgræðslu, á hvern annan hátt hefði verið hægt að standa að málum. Verið er að endurskoða allan lagabálkinn sem þessu tengist. Auðvitað er það efnisatriði málsins hvort sameina eigi skógrækt og landgræðslu þó að það sé ekki að finna í frumvarpsgreinum akkúrat þessa máls.

Ég velti þessu aðeins fyrir mér því að ég held að ég fari rétt með að þetta séu þriðju lögin um einhvers konar heildarendurskoðun, ef ekki þau fjórðu, sem hæstv. ráðherra leggur fram á þessu þingi. Nú ræðum við landgræðsluna og erum að fara að tala um skógræktina á eftir, Umhverfisstofnun er komin … (Gripið fram í.) — Eða heildarúttekt á umhverfinu öllu. Hvað varðar Umhverfisstofnun hafa margir áhyggjur af því að þarna sé verið að festa í sessi ákveðna stjórnsýslu sem sé ekki rétt að gera, og koma upp annars konar stofnunum, eins og þegar kemur að þjóðgörðum. Mér finnst í raun það sama hérna. Ég er ekki að velta þessu upp til að vera með leiðindi. Ég velti því upp hvort það sé í raun og veru rétt að sameina skógrækt og landgræðslu. Ég hef áhyggjur af því að heildarendurskoðuð lög geti fest sig í sessi eftir rúmlega hálfa öld. Þó að ég fagni því að við tökum þessi mál til endurskoðunar og setjumst yfir þessi mál í samráði við hæstv. ráðherra í hv. umhverfis- og samgöngunefnd ætla ég samt að leyfa mér að lýsa því yfir að ég velti fyrir mér hvort það sé rétt að ráðherra, sem setið hefur örfáa mánuði í embætti, leggi fram jafn mikla og afgerandi stefnumiðun í þessum málum eftir ekki lengri tíma í embætti. Sérstaklega þar sem frumvarpið byggir að miklu leyti á vinnu fyrrverandi ráðherra. Var hæstv. ráðherra bara algerlega sammála því sem fyrrverandi hæstv. ráðherrar unnu í þessum málum? Ég minnist þess nú að hafa oft heyrt að hæstv. ráðherra var sem stjórnarandstöðuþingmaður ekki alltaf sammála þáverandi hæstv. ráðherrum, en kannski var hún það í þessu máli.

Við ræðum þetta í dag, en samkvæmt starfsáætlun þingsins eru að þessum degi loknum eftir átta þingfundardagar. Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd funduðum í dag. Við munum þurfa að setjast niður á stuttum fundi um leið og búið er að mæla fyrir þessum málum hæstv. ráðherra og vísa til nefndarinnar sem sendir þau út til umsagnar. Gefum við okkur ekki tvær vikur í frest þar? Við eigum eftir að fá ráðuneytið og aðra gesti til okkar til að fjalla um þessi mál, öll þessi fjögur mál sem hæstv. ráðherra mælir fyrir í dag. Við eigum eftir að vinna umsagnir okkar, koma með málið til 2. umr. og það eru átta þingfundardagar eftir.

Hæstv. ráðherra sagði hér fyrr í umræðu í dag, að ég hygg um Landmælingar, að hún gerði sér grein fyrir að kannski yrðu ekki öll þau mál sem hún mælti fyrir hér í dag að lögum fyrir frestun núna í vor. Þess vegna velti ég enn frekar fyrir mér hver það sé sem hastar. Það getur vel verið, ítreka ég, að ég verði meira sammála efnisatriðum þessa frumvarps við yfirferð málsins en ég er akkúrat núna. Mér finnst þetta að mörgu leyti gamaldags og mun aðeins fara yfir það á eftir. En það getur vel verið að hæstv. ráðherra, ráðuneytisfólki og gestum takist að sannfæra mig um að það sé rangt hjá mér. En hvað hastar að fara í þetta akkúrat núna? Er þetta á forgangslista ráðherra yfir þau mál sem eiga að verða að lögum núna fyrir þingfrestun? Er það goðgá að setjast yfir þetta, velta því fyrir sér hvort rétt sé að gera þetta? Telur ráðherra t.d. að það eigi ekki að sameina landgræðslu og skógrækt? Það er þá bara afstaða hennar. Það er þá fínt að heyra rökin fyrir því. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór yfir það áðan að sú hugmynd hafi verið á kreiki nokkuð lengi. Ég fletti upp á Alþingisvefnum. Þetta var fyrst rætt 2004. Eins og hv. þingmaður kom inn á lét þáverandi landbúnaðarráðherra gera úttekt á þessu. Hv. þingmaður kom sjálfur inn á stefnumótun sem gerð var 2009, að ég hygg. Illu heilli var sú tillaga allt í einu inni í hagræðingarhópi síðustu ríkisstjórnar. Þá var allt í einu farið að horfa á það mál sem einhvers konar leið til sparnaðar. Hæstv. þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, var ekki að hugsa um það þegar hann var í sinni vinnu heldur réðu þar fagleg rök. Því að það eru fagleg rök fyrir því. Svo getur verið að það séu fagleg rök gegn því. Ég hef ekki heyrt þau hjá hæstv. ráðherra og fyndist réttara, ég kem hér með mína ósk um það, að þegar ég og aðrir þingmenn ræða þessi mál komi hæstv. ráðherra með fagleg rök frekar en að segja að hv. umhverfis- og samgöngunefnd geti bara vel lagað einhverjar stafsetningarvillur og það sé ekki til mikils mælst að menn lúslesi frumvörp til að finna í þeim villur.

Það verður mikið að gera hjá okkur öllum ef við ætlum að lúslesa öll frumvörp sem á eftir að mæla fyrir og koma að á þessum átta þingfundardögum ef við eigum að fara að leita að stafsetningar- og innsláttarvillum í þeim líka. Það segi ég sem fyrrverandi prófarkalesari.

En ég hef líka dálitlar áhyggjur þegar kemur að þeim þætti sem er mikilvægur í þessu öllu sem er fjármagn. Það er margt gott í þessu frumvarpi. Markmiðin eru ágæt og skýr. Ég mun aðeins koma inn á það á eftir hvað mér finnst vanta og af hverju mér finnst frumvarpið dálítið gamaldags, en það er unnið af góðum hug og markmiðin eru skýr. En hvar mun þetta allt saman rúmast í þeim aðgerðum sem fara á í núna í tengslum við Parísarsamkomulagið, lofltslagsmál? Er þetta í fjármálaáætlun? Eru auknir fjármunir settir í þetta? Erum við ekki að fara að sameina þessar stofnanir? Það kostar alltaf peninga að sameina stofnanir. Ég veit það ekki. Um 1 milljarður er settur í umhverfismál. Ramminn er aukinn á hverju ári í fjármálaáætluninni. Hvað af því fer í landgræðslu? Hvað fer í skógrækt? Það er ekki mikið til skiptanna ef fara á í öll þau fögru og spennandi verkefni sem hæstv. umhverfisráðherra hefur talað fyrir hér sem annars staðar.

Ég hefði viljað sjá stefnumótunarvinnu hjá nýjum ráðherra, að hún hefði ekki endilega tekið það sem fyrrverandi hæstv. ráðherra var búinn að vera að vinna í þessum efnum og setja fram. Er það gert bara til að stækka málaskrána eða trúir hæstv. ráðherra því innst í hjarta sínu að þetta sé eina rétta leiðin þegar kemur að skógrækt og landgræðslu? Það er þá bara fínt. Það er þá bara afstaða og hægt er að færa rök fyrir henni og reyna að vinna henni fylgi.

Sjálfum finnst mér að það eigi að skoða það alvarlega hvernig við högum þessum málum. Hvort erum við að tala um skógrækt eða landgræðslu? Þarf að sameina eitthvað? Þurfum við að setja lög um vistendurheimt? Eigum við að hugsa þessa hluti alveg upp á nýtt? Hvar mun endurheimt votlendis koma samkvæmt þeim tveimur lagabálkum sem hér liggja fyrir? Er hún á öðrum stað en endurheimt birkiskóga? Lenda þau hvort hjá sinni stofnuninni? Hvernig verður tryggt að uppgræðsla sé í sátt við þau vistkerfi sem fyrir eru? Svo ég segi það sjálfur hefur mér oft þótt uppgreiðsla — afsakið, uppgræðsla. Uppgreiðsla er fín þó að mér þyki ríkisstjórnin vera full upptekin af uppgreiðslu lána, við skulum tala um uppgræðslu, hún er fín fyrir sinn hatt. En mér hefur þótt í gegnum tíðina, og nú er ég ekki að beina orðum mínum sérstaklega til núverandi ráðherra, eins og uppgræðsla hafi verið dálítið töfraorð sem trompi allt. Ef græða á upp landið væri allt undanskilið öllum öðrum breytingum á vistkerfi og jafnvel mati á umhverfisáhrifum. Hvað þurfum við að breyta vistkerfinu mikið til að standast Parísarsamkomulagið? Hvað þurfum við að endurheimta mikið af votlendi? Hvað breytir það miklu varðandi það vistkerfi sem fyrir er? Hvað þurfum við að rækta mikið af skógum í hekturum talið? Hvað þurfum við að græða mikið land? Hverju breytir það um núverandi vistkerfi? Þarf þetta að fara í umhverfismat? Mér finnast þetta mjög gáfulegar spurningar hjá sjálfum mér, þótt ég sjálfur segi frá. Það er svo ríkt í okkur að það að græða upp landið, að endurheimta eitthvað, sé svo göfugt að það trompi allt.

Það getur vel verið göfugt og við eigum að stefna að því og styðja við þá vinnu, ekki misskilja mig hvað það varðar. En með breytingu á vistkerfi eiga að gilda sömu reglur, hver sem hún er.

Ég hefði viljað óska að það væri örlítið meiri framsýni í þessu (Forseti hringir.) og að ég sæi hér meira þá skýru og spennandi framtíðarsýn sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur þegar kemur að umhverfismálum.