146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Akkúrat til að tala skýrt eins og hæstv. ráðherra segi ég að ég hef áhyggjur af því að þessir tveir lagabálkar geti hvor um sig fest í sessi kerfi sem er kannski ekki það heppilegasta til framtíðar. Ég held að hæstv. ráðherra viti það jafn vel og ég að ef þörf knýr til þess að hægt verði að breyta ákveðnum ákvæðum til að hægt verði að koma að einhverjum greiðslum og eitthvað slíkt eru margar leiðir færar til þess.

Það getur vel verið að þetta sé leiðin aftur, hef ég sagt. Ég hef sagt að ég þykist ekki vera með einu réttu lausnina í þessu, en ég hef áhyggjur af því að það að festa ákveðið stofnanaumhverfi í sessi með nýjum lögum geti gert það að verkum að það verði erfiðara að breyta ef við viljum. Ég velti því upp hvort við þurfum kannski að fara í heildarendurskoðun. Ég fagna því að hæstv. ráðherra lýsi yfir vilja til að ræða það í framtíðinni, en þurfum við kannski bara eina heildstæða náttúruverndarlöggjöf með framsýni að leiðarljósi þar sem rúmast allir þeir þættir sem við erum búin að koma hérna inn á? Er það kannski rétta leiðin í öllum þessum málaflokkum?

Ég vil ekki hljóma eins og ég sé eitthvað sérstaklega mikið á móti þessum lögum, svo það sé sagt. Ég vil bara koma þeim áhyggjum mínum á framfæri að ég óttast að þetta gæti fest í sessi strúktúr innan kerfisins sem við viljum (Forseti hringir.) kannski breyta og er kannski nauðsynlegt að breyta. Ég held að ein heildstæð náttúruverndarlöggjöf sé kannski rétta svarið.