146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég bið forseta að beita sér fyrir því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra mæti hingað og verði til svara í ljósi þess að hann ætlar greinilega að endurtaka leikinn því að við munum öll eftir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í embætti hæstv. heilbrigðisráðherra, þegar hann fór algjörlega fram hjá þinginu með þá ákvörðun að bjóða út rekstur heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og réðst þar með í risavaxna einkavæðingu á forsendum þess lagaramma sem hann hafði, án lýðræðislegs samráðs, án stefnumótandi umræðu. Hvað á að gera núna hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra? Jú, það á að fara í einkavæðingu með því að sameina Fjölbrautaskólann í Ármúla Tækniskólanum, sem er vissulega einkarekinn, án allrar umræðu við þingið, án þess að nokkur stefnumótandi umræða hafi verið tekin á vettvangi þingsins. Og útskýringarnar sem eru gefnar eru að það eigi að bregðast við fækkun nemenda á framhaldsskólastigi og hann talar eins og það sé eitthvert náttúrulögmál en ekki hin pólitíska ákvörðun sem Sjálfstæðismenn hafa tekið um að heimila ekki (Forseti hringir.) nemendum yngri en 25 ára að stunda bóknám og að stytta framhaldsskólann með einhliða ákvörðun niður í þrjú ár. Þetta eru ekki boðleg (Forseti hringir.) vinnubrögð. Ég geri þá kröfu að hæstv. ráðherra mæti í salinn og svari fyrir sig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)