146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er nú að rætast sem við höfðum hvað mestar áhyggjur af við myndun þessarar ríkisstjórnar, að það stæði til að iðka hér hægri stefnu, mjög harða hægri stefnu með einkavæðingarsjónarmið að leiðarljósi án samráðs við Alþingi, að freista þess að fara fram hjá Alþingi, fram hjá almenningi. Hvaða umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um það sem gerðist í fréttum í morgun, um það að einkavæða Fjölbraut í Ármúla? Engin. Það átti sér engin umræða stað í menntamálanefnd, engin umræða hjá Alþingi. Ég spyr: Vill Björt framtíð þetta? Var Björt framtíð upplýst um þetta? Var Viðreisn upplýst um þetta? Vill Viðreisn einkavæðingu almannaþjónustunnar með bundið fyrir augun á Alþingi? Er það stefna Viðreisnar? Það kæmi mér sannast sagna ekki á óvart því að þar fer hægri flokkur. En ég spyr: (Forseti hringir.) Hver er eiginlega staða Bjartrar framtíðar? Er sá flokkur orðinn einhvers virði?