146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Einu sinni var til Iðnskólinn í Reykjavík, Iðnskólinn í Hafnarfirði, Sjómannaskólinn og Vélskólinn, en nú hafa þessir skólar allir runnið undir Tækniskólann, sem er einkarekinn skóli. Nú á að renna Fjölbrautarskólanum við Ármúla undir þann sama skóla. Hæstv. ráðherra menntamála segir að það sé til þess að fjölga nemendum í framhaldsskóla. Er búið að meta árangurinn af þessum sameiningum öllum saman? Er búið að meta árangurinn af því að færa Iðnskólann í Hafnarfirði undir Tækniskólann? Síðasta árið sem Iðnskólinn í Hafnarfirði starfaði voru þar 508 nemendur. Nemendum í Tækniskólanum fjölgaði um 149 við sameininguna. Er það vísbending um að það sé góð leið til þess að fjölga nemendum í framhaldsskólum að renna saman skólum á framhaldsskólastigi undir einkarekinn skóla? Hvar er árangursmatið? Hvar eru rökin? Hvar er stefnumörkunin? Þetta er skandall. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?)