146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Undanfarna daga höfum við í allsherjar- og menntamálanefnd verið að rýna tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun næstu fimm ára þar sem á að birtast langtímastefnumörkun ríkisstjórnarinnar í öllum málaflokkum. Samt fréttum við fyrst af þessari fyrirhuguðu sameiningu í morgunfréttum útvarps.

Frú forseti. Þessar fréttir sýna okkur ekki bara að Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram í skjóli nætur að einkavæða heilbrigðiskerfi og menntakerfi án þess að tala við þingið. Þetta sýnir okkur líka að þessi langtímastefnumörkun er lygi. Hér erum við með stefnumörkun til langs tíma sem tengist ekki fyrirhuguðum einkavæðingaráformum hægri stjórnarinnar. Það er ekkert í þessu plaggi um sameiningu FÁ og Tækniskólans. Hvað fleira er ekki í þessu plaggi sem á síðan að framkvæma í skjóli nætur?