146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er ekkert venjulegt tilefni sem er hér til þess að ræða fundarstjórn forseta. Við erum að tala um breytingar á íslensku samfélagi í skjóli nætur. Við erum að tala um slík vinnubrögð að það er ekki hægt að kalla þau annað en ómerkileg eða jafnvel óheiðarleg þegar ráðherra málaflokksins hittir hér fastanefnd Alþingis og greinir ekki frá þessum áformum í einu orði fyrir örfáum dögum. Ég spyr: Var þetta rætt í ríkisstjórn? Var þetta rætt á þingflokksfundum stjórnarflokkanna?

Virðulegur forseti. Það er krafa mín að ráðherra verði kallaður á þennan fund og við endurskoðum dagskrá dagsins vegna þess að þetta er svo stórt mál að við getum beðið með allt annað þangað til ráðherra hunskast til að koma hér og ræða svona stórt mál við Alþingi Íslendinga, en hann situr, honum til upplýsingar, í umboði Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)