146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Það hittist svo vel á að nú í morgun var fundur í allsherjar- og menntamálanefnd. Við vorum nýbúin að heyra þessar fréttir í útvarpinu í fyrsta sinn þegar við settumst á fund nefndarinnar, sem viku áður fundaði með ráðherra án þess að hafa heyrt af þessum áformum. Þar vorum við sammála um að ráðherra þyrfti að mæta á fund nefndarinnar. Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, er í samskiptum við ráðherra. Hann mun mæta þangað, á fund nefndarinnar, á morgun og á þriðjudag. Annar fundurinn verður opinn og í beinni útsendingu á vef Alþingis því að svör við þessum spurningum verða að berast almenningi. Fyrst ráðherrann getur ekki verið með okkur hér í dag í óundirbúnum fyrirspurnartíma er þetta það næstbesta, að við tökum hann á fund nefndarinnar og ræðum málið ofan í kjölinn við hann undir augliti almennings.