146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hæstv. ráðherra menntamála læðist í einkavæðingargrautinn um miðja nótt án þess að biðja nokkurn um leyfi, hvorki þingið né annan. Við munum eftir því að það er ekki langt síðan að hæstv. ráðherra menntamála gegndi stöðu heilbrigðisráðherra og var í viðræðum við einkaaðila um byggingu og rekstur einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ án þess að láta kóng né prest vita. Um það þurftu bæði þingmenn (Gripið fram í.) og almenningur að lesa um í fjölmiðlum, nákvæmlega eins og núna. Nú búum við við fjársvelti til framhaldsskólastigsins í boði ríkisstjórnarinnar og þetta er afraksturinn. Nákvæmlega á sama tíma og framhaldsskólinn Flensborg er að draga saman seglin, segja upp fólki og draga úr þjónustu, þá er þetta afraksturinn.

Það er ekki skrýtið að Viðreisn sé hluti af þessu einkavæðingarpukri því að við sáum viðlíka vinnubrögð í tíð núverandi ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, (Forseti hringir.) þegar hún gegndi stöðu menntamálaráðherra. Nákvæmlega sömu vinnubrögð.