146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það má virða það við ritara Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að hún kemur þó hér upp og reynir að klóra í bakkann. Það má deila um málsvörnina, hversu beysin hún er. En það væri ástæða til þess við betra tækifæri að fara yfir sögu Sjálfstæðisflokksins að þessu leyti. Hún er vörðuð þessu; opinbera kerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, er svelt, það er þrengt að því. Það er síðan notað, þrengingarnar, nauðin, sem réttlæting fyrir einkavæðingu. Ég þekki þetta orðið býsna vel af langri glímu við íhaldið. Svona er þetta. Það er auðvitað óþolandi og ólýðræðislegt að menn skuli þá ekki geta komið hreint til dyranna og sagt það t.d. fyrir kosningar að þeirra sérstaka keppikefli sé að halda áfram einkavæðingu í velferðarkerfinu á Íslandi. Eina sameiningin sem nú virðist orðin tímabær er að sameina hægri flokkanna. Eina sameiningin sem við ættum að vera að frétta af hér, frú forseti, (Forseti hringir.) er að Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hefðu runnið formlega og endanlega saman í eina sæng. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)